Danskir trillukarlar og eigendur smábáta óttast að kvótakerfið sé að ganga af smábátaútgerðinni dauðri. Danskir smábátasjómenn eru nú helmingi færri en þegar kvótakerfinu var komið á fyrir tíu árum og löndunarhöfnum smábáta hefur fækkað. 46 höfnum þar sem smábátar lögðu upp afla hefur verið lokað á undanförnum tíu árum og í 56 höfnum til viðbótar landa nú helmingi færri en árið 2005. Nú eru skráðar tæplega 600 löndunarhafnir í landinu öllu en í rúmlega 300 þeirra kemur aldrei fiskur á land. Danskir smábátasjómenn eru nú um 1800, voru 3300 fyrir tíu árum.
Árið 2005 ákvað danska ríkisstjórnin (Venstre og Konservative) með stuðningi Danska Þjóðarflokksins að aflakvótar yrðu framvegis eign útgerðanna. Kvótinn sem kom í hlut hverrar útgerðar (mjög oft í eigu eins manns) var byggður á aflamagni undanfarinna ára og almenn sátt um að sá háttur yrði hafður á. Jafnframt yrði eigendum kvótans heimilt að selja hann. Yfirlýstur tilgangur stjórnarinnar með þessu fyrirkomulagi var að þannig skapaðist möguleiki fyrir þá sem vildu hætta útgerð að fá arð af ævistarfinu, eins og það var orðað, og jafnframt hefðu aðrir sjómenn tækifæri til að auka við sig og renna þannig styrkari stoðum undir útgerðina.
Töldu að fjórðungur myndi selja kvóta og báta
Danski sjávarútvegsráðherrann sagði í viðtali árið 2005, þegar kvótakerfið var kynnt, að búast mætti við að fjórðungur smábátaeigenda myndi ákveða að selja bæði kvóta og báta. Ráðherrann sagði þetta byggt á athugunum og viðtölum við sjómenn um allt land. Hann sagði jafnframt að margir smábátaeigendur teldu sig þurfa aukinn kvóta til að geta haldið rekstrinum áfram og þeim gæfist nú tækifæri til þess.
Mun fleiri vildu selja
Eftir að kvótalögin voru sett og sala heimiluð kom í ljós að athuganir og ályktanir sjávarútvegsráðuneytisins reyndust ekki nærri lagi. Mun fleiri vildu selja bæði kvóta og báta en ráðuneytið hafði gert ráð fyrir. Dönsku sjómannasamtökin höfðu stutt lögin um kvótasöluna og þar á bæ kom þetta líka á óvart. Formaðurinn sagði að það sem hefði gerst í landbúnaðinum á fimmtíu árum hefði einungis tekið sex til sjö ár í sjávarútveginum.
Færri og stærri
Eins og áður sagði var það tilgangur kvótalaganna að skapa nýja möguleika, bæði fyrir þá sem vildu hætta sjómennskunni og líka hina sem vildu styrkja stöðu sína með auknum kvóta. Þetta markmið hefur vissulega náðst, að minnsta kosti að nokkru leyti. Nú eru mörg stór útgerðarfyrirtæki sem standa mun traustari fótum en áður. Margir stórútgerðarmenn eru nú meðal þúsund ríkustu íbúa Danmerkur og tveir þeirra með þeirra hundrað ríkustu. Fyrir tíu árum var var enginn útgerðarmaður á þessum þúsund manna lista.
Farið í kringum lögin
Þegar kvótalögin voru sett voru í þeim ákvæði sem áttu að takmarka kvótaeign, til dæmis tilteknum tegundum á ákveðnum svæðum. Þetta átti að tryggja „hæfilega dreifingu“ eins og það var orðað. En á sama hátt og vatn finnur sér ætíð farveg finna mennirnir oftast leiðir til að snúa á lagabókstafinn. Það eru sem sé margir sem eiga kvóta, á pappírnum, þótt aðrir séu hinir raunverulegu eigendur. Þeir sem skráðir eru fyrir kvóta, sem aðrir nýta gegn greiðslu, ganga hér í Danmörku undir nafninu sófasjómenn og þeir sem þannig geta bælt fletið skipta, að talið er, nokkrum hundruðum.
Afleiðingarnar
Eins og getið var hér að framan standa margar stórar útgerðir nú mun traustari fótum en áður en kvótalögin voru sett árið 2005. Jafnframt því hefur fiskvinnsla og verkun á mörgum stærri stöðum, sérstaklega á Jótlandi eflst og styrkst. Þetta hefur þýtt meiri hagkvæmni í vinnslunni og bætt samkeppnishæfni sjávarútvegarins, ekki síst í útflutningi.
En afleiðingarnar hafa líka orðið aðrar. Fram kom í upphhafi þessa pistils að smábátasjómönnum hefur fækkað mikið, fjölmörgum höfnum hefur verið lokað og margar aðrar eru vart svipur hjá sjón samanborið við það sem áður var. Þetta þýðir minna og fábreyttara mannlíf, ýmis starfsemi sem fylgdi smábátaútgerðinni og bryggjulífinu er ekki lengur til staðar, það þýðir færri vinnandi hendur. Ekki eru til neinar tölur um þau störf sem þannig hafa horfið og ekki heldur hvaða áhrif þetta hefur haft á fólksflutning frá smærri stöðum við strendur landsins.
Nær útilokað fyrir þá sem vilja byrja
Formaður danska sjómannsambandsins sagði, í viðtali við blaðið Information fyrir skömmu, að alvarlegustu afleiðingar kvótakerfisins og þeirrar „kvótaverðbólgu“ sem henni hefði fylgt væri sú staðreynd að nær ókleift væri fyrir unga menn að hasla sér völl í greininni. Það bæri dauðann með sér sagði formaðurinn. „Ef engin endurnýjun er í greininni endar það bara á einn veg“. Hann benti jafnframt á að margir, og kannski flestir, smábátasjómenn gætu ekki risið undir síhertum kröfum varðandi öryggi, meðferð fisksins o.fl o.fl. Stjórnvöld yrðu að opna augun áður en það yrði of seint.