Aldrei hefur hlutfall kvenna á þingi verið eins hátt og þessa dagana. 49,2 prósent sitjandi þingmanna eru konur. Það er þingflokkur Bjartar framtíðar sem vekur athygli á þessu á vefsíðu sinni, en ástæðan fyrir þessu meti nú er sú að þrjár varaþingkonur sitja nú á þingi fyrir flokkinn í stað tveggja karla og einnar konu.
Freyja Haraldsdóttir, Brynhildur S. Björnsdóttir og Heiða Kristín Helgadóttir sitja allar á þingi þessa daganna í stað Guðmundar Steingrímssonar, Óttarrs Proppé og Bjartar Ólafsdóttur. Einnig situr Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir á þingi fyrir Samfylkinguna í stað Guðbjarts Hannessonar.
Í vetur er líka metfjöldi kvenna kjörnir þingmenn á Alþingi, eða 44,4 prósent fastra þingmanna. Áður hafði hlutfall kvenna mest orðið 42,9 prósent.
Breytingin í vetur er komin til vegna þess að Ásta Guðrún Helgadóttir tók sæti á þingi fyrir Pírata í stað Jóns Þórs Ólafssonar, sem lét af störfum, og Sigríður Á. Andersen settist á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í stað Péturs Blöndal, sem lést í sumar.