Þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu hafi hríðfallið frá því í sumar hefur verð á því eldsneyti sem íslenskir neytendur þurfa að kaupa sér, og þeirri þjónustu sem verðleggur sig í takt við þróun olíuverðs, ekki lækkað nærri jafn mikið.
Í júní 2014 kostaði tunna af Brent-olíu 115,9 dali. Verð á henni í dag er 66,75 dalir og því hefur hún lækkað um 42,4 prósent á örfáum mánuðum. Verðið hefur ekki verið lægra í rúm fjögur ár. Ástæðan er minnkandi eftirspurn, sérstaklega vegna þess að Bandaríkin framleiða nú meira af orku og flytja mun minna inn en áður.
Þessi mikla lækkun hefur ekki skilað sér í vasa íslenskra neytenda. Þann 13. júní 2014 var sjálfsafgreiðsluverð á 95 oktana bensíni á Íslandi 249,9 krónur á líter. Í dag er lægsta sjálfsafgreiðsluverðið 217,5 krónur. Það hefur því lækkað um 12,8 prósent á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 42,4 prósent.
Icelandair lækkað eldsneytisgjaldið sitt um 15 prósent um síðustu mánaðarmót.
Vefurinn túristi.is sagði frá því um helgina að Icelandair, langstærsta flugfélagið sem ferjar Íslendinga til og frá landinu, hefði lækkað eldsneytisgjald sitt um 15 prósent um síðustu mánaðarmót. Gjaldið er hluti af farmiðaverði margra flugfélaga og hjá Icelandair nemur þetta gjald stundum meira en helmingi af verði flugmiðans. Icelandair lækkaði eldsneytisgjaldið hjá sér um 15 prósent um síðustu mánaðarmót. Þá lækkaði eldsneytisgjaldið fyrir Evrópuferðir úr 9.200 krónum í 7.900 krónur og úr 16.400 krónum í 13.900 krónur ef flokið er til Norður- Ameríku.
Þessi lækkun er mun lægri en sem nemur lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu.
Veikari króna útskýrir ekki seinaganginn
Sögulega hafa íslenskir eldsneytissalar gefið tvennskonar skýringar á því að þeir lækki ekki útsöluverð á eldsneyti samhliða lækkun á heimsmarkaði. Í fyrsta lagi vegna þess að gengi íslensku krónunnar gagnvart bandaríska dalnum hafi veikst og það tefji lækkunarferlið. Á því tímabili sem um er að ræða, frá júní til desember 2014, hefur krónan sannarlega veikst um 8,2 prósent gagnvart dalnum. Að teknu tilliti til þeirrar lækkunar hefur heimsmarkaðsverð á olíu samt lækkað um 37,3 prósent, eða mun meira en lækkun á útsöluverði á eldsneyti hefur verið hérlendis.
Hin ástæðan er sú að olíufélögin séu með uppsafnaðar birgðir af eldsneyti sem keypt hafi verið á hærra verði. Samkvæmt þeirri skýringu mega íslenskir neytendur búast við skarpri lækkun næst þegar birgðirnar verða endurnýjaðar.
Sjálfsafgreiðsluverð á bensíni á Íslandi í dag er á bilinu 217,5 til 217,9 krónur.