Landsbankinn hagnaðist um tæpa 5,6 milljarða króna á fyrri helmingi þessa árs, þar af hagnaðist bankinn um 2,3 milljarða á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður bankans dregst verulega saman á milli ára en á fyrri hluta ársins 2021 hagnaðist bankinn um 14,1 milljarð króna. Landsbankinn birti uppgjör sitt fyrir fyrstu sex mánuði ársins í dag.
Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 4,1 prósent sem er töluvert undir 10 prósenta arðsemismarkmiði bankans. Í tilkynningu frá bankanum segir að þetta skýrist einkum vegna lækkunar á gangvirði hlutabréfaeignar bankans. Þar af nam arðsemi eiginfjár 3,5 prósentum á öðrum ársfjórðungi. Á sama ársfjórðungi í fyrra var arðsemi eiginfjár 9,8 prósent og á fyrri hluta ársins 2021 nam hún 10,8 prósentum.
Fjórðungs aukning í þjónustutekjum
Rekstrartekjur bankans lækka talsvert milli ára. Þær námu rúmum 22,8 milljörðum á fyrri helmingi þessa árs samanborið við tæpa 30,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Hreinar þjónustutekjur bankans námu rúmum 5,4 milljörðum króna á fyrri hluta þessa árs og jukust um 24 prósent á milli ára. Aukningin skýrist fyrst og fremst af vaxandi umsvifum í eignastýringu og markaðsviðskiptum, að því er fram kemur í tilkynningu. Hreinar vaxtatekjur jukust sömuleiðis. Þær námu rúmum 21,4 milljörðum á tímabilinu sem er 13 prósenta aukning á milli ára.
„Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 4,0 milljarða króna en voru jákvæðar um 6,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2021. Virðisbreytingar útlána eru jákvæðar um 43 milljónir króna það sem af er ári samanborið við jákvæðar virðisbreytingar útlána upp á 2,8 milljarða króna á sama tíma á síðasta ári,“ segir í tilkynningu bankans.
Starfsfólki hefur fækkað um tæplega 60
Kostnaður bankans hefur lækkað lítillega frá því í fyrra. Kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda fer úr tæpum 7,5 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2021, niður í rúma 7,3 milljarða króna. Talsvert hefur fækkað í starfsliði bankans en stöðugildi í lok júní voru 786 samanborið við 844 á sama tíma í fyrra.
Annar rekstrarkostnaður er sá sami milli ára, rúmlega 4,5 milljarðar. Samtals lækkar rekstrarkostnaður því lítillega milli ára. Kostnaðarhlutfallið hækkar aftur á móti úr 43,7 prósentum á fyrri helming ársins í fyrra í 52 prósent á fyrri helmingi ársins í ár. Hækkun hlutfallsins skýrist af lægri tekjum.
Útlán jukust um 57,9 milljarða á tímabilinu
Eignir bankans námu 1.728 milljörðum króna í lok júní og hafa lækkað um 1,7 milljarða síðasta árið. „Útlán jukust aftur á móti um 57,9 milljarða króna á fyrri helming ársins 2022. Í lok fyrri helmings ársins 2022 voru innlán frá viðskiptavinum 935 milljarðar króna, samanborið við 900 milljarða króna í árslok 2021, og höfðu því aukist um 35 milljarða króna,“ segir í tilkynningu bankans.
Eigið fé bankans var 267,7 milljarðar við lok júní og eiginfjárhlutfall 24,9 prósent. Það hefur lækkað frá lokum síðasta árs en þá var það 26,6 prósent.