Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að ráðning félagsins á almannatenglinum Gunnari Steini Pálssyni til að ráðleggja því um hvernig félagið skyldi haga kjarabaráttu sinni í fjölmiðlum hafi „alveg tvímælalaust“ hjálpað við að snúa almenningsálitinu á sveif með læknum. Þetta kemur fram í viðtali við hann í nýjustu útgáfu Læknablaðsins sem kom út í dag.
Læknar hófu verkfallsaðgerðir í fyrrahaust. Samningar þeirra höfðu þá verið lausir um margra mánaða skeið. Aðgerðum þeirra lauk 7. janúar þegar samið var við lækna um tugprósenta launahækkun, sem var langt umfram það sem flestar aðrar stéttir hafa samið um. Á meðan að á aðgerðum lækna stóð voru fréttir af bagalegu ástandi heilbrigðiskerfisins, læknum sem sögðu upp störfum og sjúklingum sem komust ekki í aðgerðir tíðar í fjölmiðlum. Eftir að samið var greindi Morgunblaðið frá því að Gunnar Steinn Pálsson almannatengill hafi verið læknum til ráðgjafar í deilunni. Í könnun sem Capacent gerði í byrjun desember kom í ljós að læknar áttu stuðning þjóðarinnar í aðgerðum sínum, en þar kom fram að átta af hverjum tíu landsmönnum studdu verkfallsaðgerðirnar.
Stjórnvöld reyndu að snúa almenningsálitinu
Þorbjörn segir í viðtalinu við Læknablaðið að kjarasamningur lækna verði líklega til þess að halda læknum í vinnu hérlendis og að hann trúi því að hin bættu kjör muni toga einhverja lækna heim. Hann segir að ekki sé hægt að túlka sumar yfirlýsingar stjórnvalda í fjölmiðlum, á meðan að á verkfallsaðgerðum stóð, á annan
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
hátt en að þau hafi verið að reyna að snúa almenningsálitinu gegn læknum. „Það tókst ekki, enda var það meðvitað hjá okkur að svara slíku aldrei á vettvangi fjölmiðla. Við fórum hins vegar ekki í neinar grafgötur með það að við værum að fara fram á verulegar kjarabætur.“
Þorbjörn er síðan spurður út í ráðninguna á Gunnari Steini og hvort hún hafi hjálpað. Hann svarar: „Alveg tvímælalaust. Við Gunnar Steinn vorum reyndar sammála um hvernig tekið skyldi á þessu svo samstarf okkar var mjög gott. Hann ráðlagði okkur að taka ekki undir ögranir stjórnvalda í fjölmiðlum og leyfa slíkum upphrópunum að deyja út fremur en svara þeim. Enda hefði slíkt kallað á enn frekari viðbrögð og þar með væru viðræðurnar lentar á vettvangi fjölmiðlanna í stað þess að fara fram við samningaborðið, þar sem þær eiga heima. Það voru reyndar ekki allir í okkar röðum sammála þessari nálgun og vildu að við svöruðum fyrir okkur. Ég tel þó að þetta hafi reynst okkur farsælt.“