Sóttvarnarlæknir og yfirlæknir sýkingavarna komu fyrir fund velferðarnefndar Alþingis í gær og ræddu um viðbrögð við Ebólu veirunni og hugsanlegum afleiðgum þess ef hann berst hingað til lands. Samkvæmt því sem nefndin var upplýst um hefur þegar verið útbúin áætlun sem unnið er eftir, en hluti af henni er að 25 til 30 starfsmenn muni verða til taks um leið og merki sjást um að Ebóla sé að teygja sig hingað. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir í viðtali við RÚV að í gildi sé áætlun um samstillt viðbrögð Norðurlandanna.
Ebóla er bráðsmitandi blæðingarsótt en hún er nefnd eftir Ebólafljótinu í Austur-Kongó og var fyrst greind af Peter Piot, belgískum vísindamanni, árið 1976. Hann hefur í viðtölum sagt að undanförnu að útbreiðsla Ebólu um hinn vestræna heim gæti leitt til hörmunga, ef ekki verður brugðist við af festu.
Mikill viðbúnaður er nú í Evrópu og Bandaríkjunum vegna hugsanlegrar meiriháttar útbreiðslu Ebólu, einkum frá Afríku, þar sem hún hefur verið skæðust, einkum Gíneu, Síerra Leóne, Nígeríu og Líberíu. Fyrsti maðurinn sem smitast af Ebólu í Bandaríkjunum, Thomas Eric Duncan, lést á sjúkrahúsi í Dallas í gær. Heilbrigðiseftirlit Bandaríkjanna í samvinnu við ríkisstjórnina vinnur nú að nýrri viðbragðsáætlun þar sem markmiðið er að stöðva útbreiðslu veirunnar skæðu.