Mánaðarlaun sérfræðinga við lækningar, ásamt yfirmanna í byggingariðnaði og verðbréfasala hækkuðu um meira en 100 þúsund krónur í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu um laun fullvinnandi launafólks á síðustu árum.
Þar má sjá heildarlaun allra starfa þar sem að minnsta kosti 30 einstaklingar starfa í þremur rekstrareiningum. Einungis er litið til fullvinnandi einstaklinga, það er að segja þeirra sem vinna að minnsta kosti 33-36 tíma á viku. Alls eru 137 störf með rúmlega 41 þúsund starfsmönnum sem falla undir þessi skilyrði. Á meðal þeirra voru þrjú störf þar sem mánaðarlaunin hækkuðu um meira en 100 þúsund krónur á mánuði, en það voru sérfræðistörf við lækningar, yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda í byggingariðnaði og störf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa.
Launahækkunina má sjá á mynd hér að neðan, en samkvæmt henni námu mánaðarlaun í öllum þremur starfsgreinunum nokkuð yfir einni milljón króna. Mánaðarlaun verðbréfasala eru þar hæst, en sú starfstétt er sú þriðja launahæsta á landinu, samkvæmt mælingum Hagstofu.
Hins vegar lækkaði launahæsta starfið, sem inniheldur 720 forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja og stofnana, mest allra í launum á milli ára, eða um 90 þúsund krónur á mánuði, úr 1,94 milljónum í 1,85 milljónir króna. Á sama tíma fækkaði um 50 manns í starfsstéttinni. Heildarlaun níu annarra starfa lækkuðu einnig í launum, en á meðal þeirra voru, bifvélavirkjar, rafvirkjar, húsasmiðir og sölumenn.
Samkvæmt Hagstofu voru heildarlaun að meðaltali 794 þúsund krónur á mánuði í fyrra og höfðu þau hækkað um 5 prósent frá því á árinu 2019. Allt frá árinu 2014 var meðaltal heildarlauna um 563 þúsund krónur á mánuði og hafa því þau hækkað um 41 prósent síðan þá.