Tilnefningarnefnd Íslandsbanka leggur til að þrír nýir einstaklingar verði kjörnir í stjórn bankans á komandi aðalfundi hans, sem verður sá fyrsti sem haldinn hefur verið frá því að ríkið seldi 35 prósent hlut í bankanum og hann var skráður á markað.
Bankasýsla ríkisins, sem fer með 65 prósent eignarhlut í Íslandsbanka, tilnefndi fjóra stjórnarmenn í stjórnina. Þau eru Anna Þórðardóttir, Frosti Ólafsson, Guðrún Þorgeirsdóttir og Heiðrún Jónsdóttir, sem þegar sitja í stjórn bankans. Auk þess hefur tilnefningarnefnd Íslandsbanka lagt til að þau Finnur Árnason, Ari Daníelsson og Tanya Zharov verði skipuð í stjórnina á aðalfundinum, sem fer fram 17. mars næstkomandi.
Í tilkynningu til Kauphallar segir að tilnefningarnefndin leggi til í samráði við Bankasýslu ríkisins, að Finnur Árnason verði kjörinn formaður stjórnar. Núverandi formaður stjórnar er Hallgrímur Snorrason, sem hefur setið í stjórninni frá 2016 og verið formaður hennar frá árinu 2020. Hann er ekki í framboði til stjórnar nú.
Finnur er best þekktur fyrir störf sín hjá smásölurisanum Högum, þar sem hann var forstjóri í 15 ár. Hann er auk þess stjórnarformaður Nýja Landspítalans og stjórnarformaður Ormsson.
Ætla að skila yfir 50 milljörðum til hluthafa
Íslandsbanki hagnaðist um 23,7 milljarðar króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 14,2 prósent og sem var vel yfir tíu prósent markmiði bankans. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 54,3 prósent í 46,2 prósent milli ára.
Á grundvelli þessarar afkomu ætlar Íslandsbanki að greiða hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð. Þar af fer 65 prósent til stærsta einstaka eigandans, íslenska ríkisins, eða rúmlega 7,7 milljarðar króna. Þeir sem eiga 35 prósent hlut í bankanum fá svo samanlagt tæpa 4,2 milljarða króna í arðgreiðslu. Auk þess stefnir stjórn bankans að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé á næstu 12-24 mánuðum. Sú vegferð mun hefjast með því að stjórn Íslandsbanka mun leggja til við aðalfund bankans að hefja endurkaup á bréfum fyrir 15 milljarða króna á næstu mánuðum.
Næsta skref í sölu Íslandsbanka stigið í sumar
Ríkisstjórnin ætlar að selja eftirstandandi 65 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum. Til stendur að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins í sumar og ríkið reiknar með að fá um 75 milljarða króna fyrir hann, samkvæmt því sem fram kom í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. Það sem eftir stæði yrði svo selt 2023 ef markaðsaðstæður yrðu ákjósanlegar.
Í greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um frekari sölu á Íslandsbanka sem birtist á vef stjórnarráðsins í síðasta mánuði kom fram að Bankasýsla ríkisins teldi skynsamlegt að næsta skref í sölu Íslandsbanka væri með útboði á hlutabréfamarkaði, þar sem hæfir fagfjárfestar fengju möguleika á að kaupa hluti í bankanum á afslætti.