Í rekstar- og aðgerðaráætlun um rekstur RÚV er ein forsenda þess að hann komist í jafnvægi án verulegrar skerðingar á þjónustu sú að ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingar fyrirtækisins. Þær eru um þrír milljarðar króna. Verði þetta að veruleika, ásamt því að RÚV selji lóðir fyrir 1,4 milljarða króna, munu langtímaskuldir RÚV lækka úr 4,4 milljörðum króna í 402 milljónir króna. Áætlunin er unnin af RÚV í samráði við starfshóp þriggja ráðuneyta. Þetta kemur fram í greinarferð fjárlaganefndar Alþingis um fjárhag RÚV þar sem áætlunin er til umfjöllunar. Fjármálaráðuneytið hefur þegar samþykkt áætlunina. Morgunblaðið greinir frá.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að tap upp á 33 milljónir króna verði á rekstri RÚV á yfirstandandi ári. Hagnaður verði hins vegar af rekstrinum rekstrarárið 2015-2016 upp á 1.540 milljónir króna, að mestu vegna lóðasölu upp á 1,4 milljarða króna. Samkvæmt áætluninni verður rekstur RÚV heilt yfir í jafnvægi á því sex ára tímabili sem fjallað er um í henni. Í Morgunblaðinu segir: „Samkvæmt áætluninni mun eiginfjárhlutfall í efnahag RÚV aukast úr 4% rekstrarárið 2014-2015 í 68,5% á yfirstandandi ári. Það gerist fyrst og fremst með því að langtímaskuldir fara úr 4,45 milljörðum niður í 402 milljónir króna.“
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir í samtali við blaðið að ekki sé búið að taka ákvörðun um að ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingar RÚV. „Stjórn Ríkisútvarpsins horfir mjög til þessa þáttar og það er skiljanlegt. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun þar að lútandi hjá þeim sem slíka ákvörðun þurfa að taka. Það er eitthvað sem snýr að fjármálaráðuneytinu, okkur [í ráðuneytinu] og svo þinginu.“
Eyþór Arnalds stýrir hópi sem fer yfir rekstur RÚV
Illugi tilkynnti í gær að hann hefði skipað þriggja manna starfshóp undir formennsku Eyþórs Arnalds til að skoða og greina rekstur Ríkisútvarpsins (RÚV) frá því að það var gert að opinberu hlutafélagi 1. apríl 2007. Markmið skoðunarinnar er að varpa ljósi á ástæður þess alvarlega rekstrarvanda sem RÚV glímir við. Hópurinn á að skila niðurstöðum eigi síðar en 26. júní næstkomandi.
Fyrr í þessari viku var greint frá því að llugi hafi fallið frá áformum um frekari lækkun útvarpsgjaldsins á árinu 2016. Útvarpsgjaldið er helsta tekjulind RÚV. Hann hefur þegar tilkynnt þetta í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og undirtökur þingmanna við þessum áformum voru misjafnar.
Mikið fjaðrafok var í kringum RÚV í lok síðasta árs eftir að tilkynnt var að fyrirtækið, sem er með tæpa sex milljarða króna í rekstrartekjur á þessu rekstrarári að meðtöldum auglýsingatekjum, myndi fá útvarspgjaldið óskert (áður hafði hluti þess verið notaður til annarra verkefna ríkissjóðs) en að það yrði lækkað. Árið 2014 var það 19.400 krónur á hvern greiðenda, en er 17.800 krónur í ár. Árið 2016 átti það að lækka enn frekar og verða 16.400 krónur.
Stjórnendur RÚV sögðust einungis geta rekið RÚV og sinnt lögbundnu hlutverki þess ef fyrirtækið fengi útvarspgjaldið óskert og með því að selja eignir upp í skuldir. Hávær mótmæli urðu gegn því sem kallað var aðför að RÚV. Stjórnarmeirihlutinn stóð hins vegar fast á sínu og fjárlög voru samþykkt með lækkunina innanborðs.
Nú hefur mennta- og menningarmálaráðherra hins vegar hætt við að lækka útvarpsgjaldið frekar og búið er að opna á að ríkið taki yfir lífeyriskuldbindingar RÚV, sem eru þorri langtímaskulda félagsins. Miklar breytingar gætu því verið framundan á rekstri RÚV næstu misserin.