Menningar- og viðskiptaráðuneytið, sem stýrt er af Lilju D. Alfreðsdóttur, hefur birt drög að frumvarpi um breytingar á ákvæðum fjölmiðlalaga er varða stuðning til einkarekinna fjölmiðla í Samráðsgátt stjórnvalda.
Helsti tilgangur frumvarpsins er að framlengja stuðning ríkissjóðs við einkarekna fjölmiðla, sem hefur verið í gildi frá 1. ágúst 2021 en á að óbreyttu að renna út í lok þessa árs, um tvö ár. Verði frumvarpið að lögum munu styrkirnir því áfram verða greiddir úr á árunum 2023 og 2024. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs verði allt að 400 milljónir króna á ári. Þá er lagt til orðalagsbreyting í markmiðsákvæði laganna þess efnis að mælt verði fyrir um að fjölmiðlar séu hornsteinn lýðræðis.
Samkvæmt drögunum er stefna stjórnvalda að innan þessara ára verði „lagt fram nýtt frumvarp til fimm ára sem sé í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norðurlöndunum. Þannig verður Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla.“
Ísland verði ekki eftirbátur hinna Norðurlandanna
Í greinargerð sem fylgir frumvarpsdrögunum segir að við mat á stuðningi ársins 2021 hafi mátt greina að sá stuðningur sem einkareknir fjölmiðlar fengu hafi nýst afar vel. „Stuðningur við einkarekna fjölmiðla hefur meðal annars gert sumum fjölmiðlum kleift að fjölga stöðugildum á ritstjórn, halda útgáfu óbreyttri, komið í veg fyrir frekara aðhald í rekstri og bætt aðstöðu blaðamanna, svo fátt eitt sé nefnt. Styrkþegar eru sammála um að styrkurinn hafi skipt miklu máli. Þrátt fyrir framangreint hefur komið fram gagnrýni að stuðningskerfið sé ekki nægilega fyrirsjáanlegt en gildistími kafla laganna um stuðning við einkarekna fjölmiðla var einungis til tveggja ára. Til að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika kerfisins er gert ráð fyrir að framlengja gildistíma kaflans til tveggja ára og skipa úthlutunarnefnd til sama tíma.“
Þar er einnig farið yfir að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð sé unnið að umfangsmiklum breytingum á stuðningi við einkarekna fjölmiðla. „Í þessum löndum virðist þróunin vera sú að auka fjármagn til úthlutunar en lækka þak einstakra styrkja. Þegar þetta er ritað hafa drög að frumvörpum þess efnis ekki verið birt. Í ljósi þess að gífurlega miklar breytingar eru í vændum á stuðningskerfum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar og þeirrar miklu reynslu sem framangreind lönd hafa af fjölmiðlastyrkjum verður gildistími lagaákvæða samkvæmt frumvarpi þessu aðeins tvö ár, með það að markmiði að innan þess tíma verði lagt fram frumvarp til laga með gildistíma til fimm ára sem sé í takt við þróun annars staðar á Norðurlöndum. Þannig verði Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla.“
Ísland er sem stendur í 15. sæti á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi í heiminum. Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru í efstu sætum þess lista.
25 fjölmiðlar fengu styrk í ár
Aðrar smávægilegar breytingar verða gerðar á lögunum. Þannig verður umsóknarfrestur færður frá 1. ágúst ár hvert til 1. október. Þá verður þeim fjölmiðlum sem fá styrk gert að skila greinarferð um ráðstöfun styrkjafjár svo unnt sé að meta ávinning af styrkjakerfinu. Auk þess er lagt til að ef miðlar hafi hlotið hafa styrk frá opinberum aðilum vegna efnis þá dragist þeir styrkir frá þeirri fjárhæð sem telst stuðningshæfur kostnaður. Undantekning er þó gerð í tilviki stuðnings úr byggðaáætlun stjórnvalda.
Þegar styrkjunum var síðast úthlutað í síðasta mánuði fengu alls 25 fjölmiðlafyrirtæki styrk. Alls var 381 milljón króna úthlutað til þeirra og þrjú stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakur, Sýn og Torg, tóku þorra upphæðarinnar til sín. Þau fengu hvert um sig tæplega 66,8 milljónir króna í rekstrarstuðning úr ríkissjóði í ár. Því fór 53 prósent upphæðarinnar til þeirra.
Sá aðili sem jók rekstrarstuðning sinn mest milli ára voru Bændasamtök Íslands, sem eru ekki atvinnugreinaflokkuð sem útgáfustarfsemi heldur sem hagsmunasamtök. Rekstrarstuðningurinn var vegna útgáfu Bændablaðsins og nam 16,8 milljónum króna nú, sem var 4,4 milljónum krónum meira en Bændasamtökin fengu í greiðslur í fyrra.
Ritstjórn Bændablaðsins heyrir undir útgáfu- og kynningarsvið Bændasamtaka Íslands. Á heimasíðu Bændasamtakanna segir að hlutverk þeirra sé að vera „málsvari bænda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna“. Meginmarkmið þeirra sé að „beita sér fyrir bættri afkomu bænda, betri rekstrarskilyrðum í landbúnaði auk þess að miðla upplýsingum og sinna fræðslu til sinna félagsmanna.“
Kjarninn er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem nýtur opinbers rekstrarstuðnings.