Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði fram breytingatillögu á þingsályktunartillögu um Hvammsvirkjun á fundi í morgun. Lagt var til að fjórir virkjanakostir til viðbótar við Hvammsvirkjun yrðu sendir í umsagnarferli, en þetta var gert munnlega og málið var ekki á dagskrá nefndarinnar í morgun.
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingkona Vinstri grænna vakti athygli á þessu í upphafi þingfundar í morgun, og skapaðist talsverð umræða um málið í kjölfarið. Stjórnarandstæðingar kröfðust þess að hlé yrði gert á þingfundi og þingflokksformenn og forsætisnefnd myndu funda um málið. Var Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sakaður um lögbrot með því að leggja málið fram. Hann vísaði gagnrýni á bug á þingfundinum. Jón olli uppnámi á þinginu í nóvember með því að leggja þá til við nefndinar að átta virkjunarkostum yrði bætt við þingsályktunartillöguna.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, samþykkti að halda fund um málið í hádegishléi þingfundar. Fjörutíu mínútum eftir að þingfundur hófst er enn verið að ræða málið undir liðnum fundarstjórn forseta.
Virkjanirnar sem um er að ræða eru Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í Þjórsá og svo Hagavatnsvirkjun, samkvæmt því sem kom fram á Alþingi í morgun. Ekki er búið að leggja fram neina skriflega tillögu um málið.
Verkefnisstjórn áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða lagði aðeins til að Hvammsvirkjun yrði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk í tillögum sínum til ráðherra. Hún gerði ekki tillögur um að breyta röð virkjunarkosta sem fram koma í núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun, sem var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013.