Hagvöxtur á fyrstu sex mánuðum ársins var 0,6 prósent að raungildi samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti síðastliðinn föstudag. Það er langt fyrir neðan flestar spár þegar árið er skoðað í heild. Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 3,4 prósent hagvexti í ár og spá efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins var á svipuðum nótum. Seðlabankinn spáir því að vöxturinn komi ekki síst til vegna aukningar í fjárfestingu, þá sérstaklega á síðari helmingi ársins. Hagvaxtartölurnar fyrir fyrri helming ársins eru þó töluvert lægri en spáin fyrir tímabilið gerði ráð fyrir, sem var upp á tæplega eitt prósent.
Hvert prósent telur drjúgt
Á fyrstu sex mánuðunum jukust þjóðarútgjöld, sem er samtala neyslu og fjárfestingar, töluvert umfram hagvöxt, eða um 2,8 prósent. Einkaneysla er að aukast töluvert þessa dagana, miðað við árið á undan, og jókst um fjögur prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Fjárfesting jókst um 7,8 prósent og heldur áfram að rétta úr kútnum eftir mögur ár í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Athygli vekur að innflutningur jókst um níu prósent á meðan útflutningur jókst töluvert minna, eða um 3,7 prósent.
Nýbyggingar aukast
Vöxtinn í fjárfestingum má ekki síst rekja til mikillar aukningar í íbúðafjárfestingu en hún jókst um 26,3 prósent milli ára. Fjárfesting hins opinbera jókst um 6,2 prósent en fjárfesting atvinnuvega jókst um 3,8 prósent, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Sérstaklega var mikil fjárfesting í gangi á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða marktækt meiri en á öðrum ársfjórðungi.
Innflutningur eykst
Augljóslega má sjá merki um meiri neyslu hjá almenningi í hagtölum um innflutning. Hann jókst um níu prósent eins og áður segir. Þar af jókst þjónustuinnflutningur um 11,9 prósent og vöruinnflutningur um 7,4 prósent.
Neysludrifinn hagvöxtur
Hagvöxturinn, þó veikur hafi verið á fyrstu mánuðum ársins, er þessa dagana ekki síst drifinn áfram af aukinni neyslu. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 28,5 milljarðar á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er mun minna en í fyrra. Á sama tímabili á því ári var sú tala 54,1 milljarður króna, eða ríflega 25 milljörðum hærri tala en á þessu ári.
Leiðréttingin ekki byrjuð að hafa áhrif
Aðgerð stjórnvalda sem nefnist leiðréttingin, þar sem mögulegt verður að fá fé úr ríkissjóði til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána, er ekki enn farin að hafa áhrif á efnahag þjóðarinnar. Seðlabanki Íslands varaði við aðgerðunum, líkt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, og taldi að þær gætu haft neysluhvetjandi áhrif og að fólk myndi nýta féð sem það fær, það er bætta skuldastöðu, til þess að fjárfesta, ekki síst í húsnæði. Í versta falli gætu þær leitt til ójafnvægis í þjóðarbúskapnum, kynt undir neyslu og veikt gengi krónunnar.
Ríflega 65 þúsund umsóknir bárust um leiðréttingu í gegnum vefinn leidretting.is og standa um 100 þúsund einstaklingar að baki umsóknunum. Þar af sóttu 23 þúsund einstaklingar um að ráðstafa séreignasparnaði sínum til þess að greiða niður húsnæðislán. Ekki liggur enn fyrir hvað fólk mun bera úr býtum í gegnum þessar aðgerðir stjórnvalda en heildarumfang aðgerðanna er áætlað um 150 milljarðar króna og að þar af muni 80 milljarðar renna úr ríkissjóði til þess að greiða inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir.