Landsbankinn auglýsti 0,41 prósent hlut sinn í Borgun til sölu fyrir fjárfesta sem uppfylla skilyrði um hæfi. Var auglýsing þess efnis birt á vef Landsbankans um miðjan apríl.
Þann 29. mars 2015 var Sparisjóður Vestmannaeyja ses. sameinaður Landsbankanum hf. Við sameininguna eignaðist bankinn 1.806.611 hluti í Borgun hf. Eignarhluturinn nemur 0,41% heildarhlutafjár í félaginu.
„Landsbankinn býður hæfum fjárfestum, eins og þeir eru skilgreindir í 9. tl. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, þennan eignarhlut til kaups,“ segir á vefnum.
Tilboð í eignarhlutinn átti að senda til Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans með bréfi eða tölvupósti á netfangið fyrirtaekjaradgjof@landsbankinn.is fyrir klukkan 16:00 þann 4. maí 2015. Ekki liggur fyrir hversu margir sýndu áhuga á að kaupa hlutinn eða skiluðu inn tilboði.
Landsbankinn áskilur sér rétt til að hafna öllum þeim tilboðum sem berast í eignarhlutinn, samkvæmt upplýsingum sem fram kom í auglýsingu á vef bankans. „Landsbankinn vekur athygli á að hann er ekki í aðstöðu til að afhenda gögn um fjárhag eða fjárhagsupplýsingar um félagið, en vísar til ársreikninga þess, sem má nálgast hjá ársreikningaskrá. Þá er vakin athygli á því að eigandi meirihluta hlutafjár í Borgun hf. er jafnframt einn stærsti viðskiptavinur félagsins,“ segir í auglýsingu Landsbankans, og er þar vitnað til Íslandsbanka.
Eins og Kjarninn greindi frá, var 31,2 prósent hlutur Landsbankans seldur bak við luktar dyr til valinna fjárfesta, en söluferlið var á þeim tíma lokað og ekki auglýst. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði á aðalfundi bankans að það hefðu verið mistök að auglýsa ekki hlutinn til sölu, en íslenska ríkið er eigandi rúmlega 98 prósent hlutafjár í bankanum. Landsbankinn fékk 2,2, milljarða fyrir hlutinn, en gengið frá sölunni í lok árs í fyrra. Í febrúar á þessu ári var í fyrsta skipti greiddur arður úr félaginu frá því árið 2007, samtals 800 milljónir króna.