Sparisjóður Vestamannaeyja hefur verið sameinaður Landsbankanum. Fjármálaeftirlitið hefur tekið ákvörðun um þetta og tekur samruninn gildi frá og með klukkan 15 í dag, sunnudaginn 29. mars 2015. Allir starfsmenn sjóðsins eru því orðnir starfsmenn Landsbankans, hann hefur yfirtekið allar eignir og skuldir sjóðsins, þar með talin útlán og innlán viðskiptavina. Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja munu fá 0,15 prósent hlut í Landsbankanum fyrir stofnfé sitt, en virði þess var metið á 332 milljónir króna í samrunanum.
Starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja verður óbreytt fyrst um sinn og öll útibú hans, sem eru fimm talsins, munu vera opin á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum sem send var vegna samrunans.
Sparisjóðurinn hefur ekki uppfyllt lögbundnar kröfur um eigið fé um nokkurt skeið og viðræður hafa staðið yfir við nokkra aðilar um að endurreisa sjóðinn. Morgunblaðið greindi frá því í lok síðustu viku að erlendur aðili hafi haft áhuga á að koma að sem nýr meirihlutaeigandi. Sú útfærsla gekk út á að hann, ásamt innlendum fjárfestum, myndi leggja sjóðnum til nýtt hlutafé til að hann myndi uppfylla lögbundnar kröfur. Aðrar leiðir sem voru til umræðu voru þær að Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, myndi taka sjóðinn yfir eða að Arion banki myndi gera tilboð í sjóðinn. Ef ekki hefði tekist að finna nýjan eiganda að sparisjóðnum um helgina hefði Fjármálaeftirlitið að öllum líkindum skipað slitastjórn yfir hann.
Þurftu að leggja fram tillögur á föstudag
Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja fékk frest til klukkan 16 síðastliðinn föstudag til að skila fullnægjandi gögnum um leið sem gæti tryggt eiginfjárstöðu sjóðsins. Sá frestur var síðan framlengdur og seint á föstudagskvöld óskaði stjórnin eftir því að Landsbankinn myndi gera tilboð í sjóðinn. Nú er þeirri yfirtöku lokið.
Í tilkynningu vegna samrunans er haft eftir Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur, fráfarandi stjórnarformanni Sparisjóðs Vestmannaeyja, að með samkomulaginu hafi náðst farsæl niðurstaða sem tryggi hag sjóðsins.Óhjákvæmilegt hafi verið að leita samstarfs við traustan aðila vegna stöðu sparisjóðsins.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að lögð verði áhersla á að „samþætting í kjölfar samrunans gangi vel og hratt fyrir sig til þess að tryggja öfluga fjármálaþjónustu á þessum svæðum.“