Hagnaður Landsbankans á árinu 2014 nam 29,7 milljörðum króna eftir skatta. Það er tæplega milljarði meira en hagnaður bankans á árinu 2013 sem var 28,8 milljarðar króna. Hluthafar fá 24 milljarða arðgreiðslu vegna ársins í fyrra, verði tillaga þar um samþykkt á aðalfundi.
Íslenska ríkið á tæplega 98 prósent hlut í Landsbankanum, bankinn sjálfur á 1,3 prósent og um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans eiga 0,8 prósent hlut. Þeir fá tæplega 200 milljónir í sinn hlut vegna arðgreiðslunnar, en íslenska ríkið 23,5 milljarða.
Upphæðin sem kemur til starfsmanna nemur rúmlega 110 þúsund krónum á hvern starfsmann.
Ársuppgjör Landsbankans var birt í dag, en arðsemi eiginfjár bankans var 12,5 prósent í árslok. Eigið fé bankans nam 250,8 milljörðum króna í árslok. Til samanburðar nemur eigið fé hjá Landsvirkjun, sem einnig er í eigu ríkisins, rúmlega 220 milljörðum króna, eða 1,7 milljarði Bandaríkjadala.
Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að arðsemi eiginfjár eftir skatta á árinu 2014 var 12,5 prósent. Hreinar vaxtatekjur bankans lækkuðu verulega milli ára, eða um 6,2 milljarða króna. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2014 nam 9,8 milljörðum króna en hann var 6,5 milljarða króna á sama fjórðungi 2013.
Heildareignir bankans námu tæplega 1.100 milljörðum króna í árslok.
Eigið fé bankans stóð í 250,8 milljörðum króna í árslok, eins og áður sagði, og hækkaði um 9,4 milljarða þrátt fyrir fyrrnefnda 20 milljarða arðgreiðslu.