Landsbankinn hagnaðist um 3,2 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við 7,6 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra, samkvæmt uppgjörstilkynningu sem bankinn sendi frá sér í dag.
Arðsemi eigin fjár bankans var einungis 4,7 prósent samanborið við 11,7 prósent í fyrra. Bankinn er með það markmið að arðsemi eigin fjár sé tíu prósent og er allnokkuð undir því á fyrsta ársfjórðungi, en arðsemin yfir allt síðasta ár var 10,8 prósent.
Eigið fé Landsbankans var 265,3 milljarðar króna þann 31. mars og eiginfjárhlutfallið var 24,3 prósent. Bankinn mun greiða alls 20,6 milljarða króna í arð á árinu, aðallega til ríkissjóðs, sem á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum.
Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mældist 38,7 prósent í lok mars, sem er meira en á sama tíma í fyrra.
Hreinar vaxtatekjur voru 10,3 milljarðar á fyrstu þremur mánuðum ársins og jukust um 19 prósent frá fyrra ári, að sögn bankans aðallega vegna þess að efnahagsreikningurinn er stærri og ávöxtun lausafjár betri.
Hreinar þjónustutekjur bankans jukust um 28,5 prósent á milli ára og er það einkum sagt vera vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum, en þær fóru úr 2,1 milljarði upp í 2,6 milljarða.
Rekstrarkostnaður bankans var 6,7 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 6,6 milljarða króna á sama tímabili í fyrra og þar af voru laun og launatengd gjöld 3,8 milljarðar, sama upphæð og á fyrra ári. Kostnaður bankans sem hlutfall af tekjum hans (K/T) fyrstu þrjá mánuði ársins var 54,9 prósent, samanborið við 45,8 prósent á sama tímabili í fyrra.
Eignir bankans námu 1.734 millljörðum króna við lok ársfjórðungsins og höfðu vaxið um 3,8 milljarða frá upphafi árs. Innlán viðskiptavina voru 922,6 milljarðar króna undir lok ársfjórðungsins og jukust um 22,5 milljarða á ársfjórðungnum.
Útlán bankans jukust um 29 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022, en útlánaaukninguna segir bankinn að rekja megi til aukningar á lánum til bæði einstaklinga og fyrirtækja. Bankinn segir um 90 prósent allra nýrra íbúðalána bankans hafi vera óverðtryggð á fyrstu mánuðum ársins og 58 prósent lána með fasta vexti, flest til þriggja ára.