Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi, frá júlí fram í lok september, nam 7,5 milljörðum króna. Alls hagnaðist bankinn um 21,6 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins og segir í tilkynningu bankans að jákvæðar virðisbreytingar, sökum þess að efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs hafi verið vægari en gert var ráð fyrir, séu stór þáttur í góðri afkomu bankans það sem af er ári.
Í uppgjörstilkynningu bankans, sem send var út í dag, kemur fram að arðsemi eiginfjár bankans hafi verið 10,9 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins og að hreinar þjónustutekjur hafi aukist um 22 prósent á milli ára, sem sagt er einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum.
Kostnaðarhlutfall bankans, kostnaður hans sem hlutfall af tekjum, var 37,9 prósent á síðasta ársfjórðungi og er 41,7 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri segir í fréttatilkynningu bankans að hlutfall kostnaðar af tekjum hjá Landsbankanum sé „með því lægsta sem þekkist hjá bönkum í Evrópu.“
Eigið fé Landsbankans nam 275,3 milljörðum króna í lok september og eiginfjárhlutfallið var 24,9 prósent. Heildareignir bankans á sama tímapunkti námu 1.718 milljörðum króna.
40 prósent nýrra óverðtryggðra lána með fasta vexti
Samkvæmt tilkynningu bankans er markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði 39 prósent og hefur aldrei verið meiri. Hið sama er sagt um hlutdeild bankans í íbúðalánum, en hún er 28,7 prósent.
Útlán bankans jukust um 103 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Útlán til einstaklinga jukust um 110 milljarða króna en útlán til fyrirtækja drógust saman um 7 milljarða króna.
Fram kemur í tilkynningu bankans að um 93 prósent af þeim nýju íbúðalánum sem bankinn veitir séu óverðtryggð og að tæplega 40 prósent af nýjum lánum séu nú með fasta vexti.
„Við sjáum skýrt og greinilega að fólk kýs í auknum mæli að festa vextina. Við höfum einfaldað viðskiptavinum þá aðgerð og það er hægt að festa vextina með hnappi í Landsbankaappinu,“ er haft eftir Lilju Björk í tilkynningu bankans.