Landsbankinn hefur tilkynnt að hann hækki breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,5 prósentustig. Vextirnir verða 4,7 prósent eftir breytinguna en bankinn ætlar ekki að breyta föstum vöxtum á óverðtryggðum íbúðalánum. Þeir verða áfram þannig að á festingu til þriggja ára eru fimm prósent vextir upp að 50 prósent veðsetningu, 5,20 prósent að láni milli 50 og 70 prósent veðsetningu og 6,2 prósent vöxtum þaðan og upp í 85 prósent veðsetningu. Þá er hægt að festa vextina í fimm ár með 0,2 prósentustiga hærri vöxtum.
Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, er fyrstur kerfislega mikilvægu bankanna þriggja til að hækka íbúðalánavexti í febrúar. Búast má við því að hinir tveir, Íslandsbanki og Arion banki, tilkynni um vaxtahækkun fljótlega.
Hækkunin er gerð í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti bankans í 2,75 prósent í síðustu viku. Um er að ræða hækkun á 0,75 prósentustigum frá því sem áður var og alls hafa vextir hækkað um tvö prósentustig frá því í maí í fyrra, þegar vaxtaákvörðunarferli Seðlabanka Íslands hófst.
Í yfirlýsingu nefndarinnar sagði að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var í febrúarhefti Peningamála, var hagvöxtur um einu prósentustigi meiri á síðasta ári en spáð var í nóvember eða um 4,9 prósent. „Spáð er svipuðum hagvexti í ár. Störfum hefur haldið áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka og er áætlað að framleiðsluslakinn sem myndaðist í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar sé horfinn. Óvissa er hins vegar enn mikil.“
Reynt að hemja hækkun á íbúðaverði
Hækkun íbúðaverðs er megindrifkrafturinn i hærri verðbólgu, sem stýrivextirnir eiga að reyna að berja niður. Án þess væri verðbólgan 3,7 prósent en ekki 5,7 prósent.
Í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðarins sem birt var í síðustu viku kom, fram að ekkert væri að draga úr verðhækkunum. Íbúðaverð heldur þvert á móti áfram að hækka. Nú mælist hækkunin 16,6 prósent síðastliðið ár og meðalkaupverð hefur hækkað um fimm milljónir króna á síðustu tveimur mánuðum á höfuðborgarsvæðinu. Það var 68,2 milljónir króna í desember 2021 en 63,2 milljónir króna í október sama ár. Framboð á íbúðum heldur á sama tíma áfram að dragast saman. Í byrjun febrúar 2020 voru 1.031 íbúð til sölu en til samanburðar voru þær nálægt fjögur þúsund í maí 2020. Íbúðum til sölu hefur því fækkað um 74 prósent á þeim tíma. Mestur er samdrátturinn á höfuðborgarsvæðinu en þar voru einungis 440 íbúðir til sölu í byrjun yfirstandandi mánaðar. Framboðið hefur dregist saman um 27 prósent á tveimur mánuðum.
Framboð af ódýrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu er sérstaklega lítið. Fjöldi íbúða sem eru með ásett verð á bilinu 30-40 milljónir króna eru nú aðeins 26 talsins eða um tíu prósent af því sem þær voru í upphafi maí 2020. Þá var enn eitt metið slegið í desember þegar 39,6 prósent allra íbúða í landinu seldust yfir ásettu verði.
Eykur greiðslubyrði heimila
Í skýrslu HMS sagði að greiðslubyrði óverðtryggðra lána gæti hækkað á næstunni vegna vaxtabreytinga. „Miðað við lægstu vexti á óverðtryggðum lánum hjá bönkunum er greiðslubyrði lána um 42 þ.kr. fyrir hverjar 10 m.kr. sem teknar eru að láni. Hækki stýrivextir um 0,5-0,75 prósentustig gæti greiðslubyrðin hækkað í 44-47 þ.kr. en það fer þó eftir því að hversu miklu leiti hækkun stýrivaxta skilar sér í hækkun vaxta á íbúðalánum. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána gæti því hækkað um allt að 18 þ.kr. á mánuði fyrir heimili sem er með 40 m.kr. íbúðalán.“
Alls var heildarumfang óverðtryggðra íbúðalána heimila hérlendis 1.130 milljarðar króna í lok september í fyrra. Alls 700 milljarðar króna af óverðtryggðum lánum voru með breytilega vexti, eða 62 prósent þeirra. Það þýðir að þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti, og lánalánveitendur hækka í kjölfarið íbúðalánavexti í takti við það, þá annað hvort hækka afborganir þeirra sem eru með slík lán umtalsvert eða sá hluti þeirra sem fer í að greiða vexti frekar en að greiða niður lánið dregst saman.
Mikill hagnaður meðal annars tilkominn vegna íbúðalána
Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír högnuðust um 81,2 milljarða króna í fyrra. Það er um 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020. Bankarnir þrír urðu allir til á grundvelli neyðarlaga sem sett voru haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins. Þá voru eignir fallinna banka fluttar með handafli yfir á nýjar kennitölur. Samanlagður hagnaður stóru bankanna frá hruni er 750,2 milljarðar króna. Mestur var hann árið 2015, en þá litaði umfangsmikil eignasala uppgjörið.
Hinn mikli hagnaður þeirra í fyrra en meðal annars tilkominn vegna þess að útlánasöfn þerira hafa stækkað mikið, aðallega vegna þess að þeir hafa aukið við lánveitingar til íbúðarkaupa. Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020.
Vaxtamunur bankanna þriggja var á bilinu 2,3-2,8 prósent á síðasta ári, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Mestur var hann hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent í fyrra. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.