Samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum fyrir árið 2014 var magn vergrar landsframleiðslu á íbúa á Íslandi 21 prósent yfir meðaltali Evrópusambandsríkja árið 2014. Í samanburði við 37 Evrópuríki, það eru 28 ríki Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs, Sviss, Tyrklands, Svartfjallalands, Serbíu, Bosníu-Hersegóvínu, Albaníu og Makedóníu, var Ísland 10. í röðinni yfir verga landsframleiðslu á íbúa sama ár.
Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar sem birt var í dag. Samanburðurinn er unninn í samstarfi við hagstófu Evrópusambandsins, Eurostat, og OECD. Myndin hér að neðan er úr frétt Hagstofunnar.
Magn landsframleiðslu á mann fyrir árið 2014. Myndin er fengin af vefsíðu Hagstofunnar.
Magn vergrar landsframleiðslu á íbúa var mest í Lúxemborg, alls 163 prósentum yfir meðaltali Evrópusambandsríkja. Þar á eftir kom Noregur þar sem verg landsframleiðsla á íbúa var 79 prósentum yfir meðaltali Evrópusambandsríkja. Lúxemborg sker sig úr hópnum en líta verður til þess að fjöldi fólks vinnur og verslar í landinu og leggur til landsframleiðslunnar, en býr utan landsins og telst því ekki til íbúafjöldans.
Landsframleiðla er framleiðsla á allri vöru og þjónustu innan ákveðins landsvæðis yfir ákveðið tímabil. Til þess að bera saman löndin er notast við svokallað jafnvirðisgildi. Þá er landsframleiðsla landanna umreiknað með tilliti til mismunandi verðlags í löndunum. Jafnvirðisgildi sýnir hversu mikið þarf af gjaldmiðlum einstakra landa til að kaupa sama magn af vöru og þjónustu í öðrum löndum.
Tengt efni:
Munurinn á þjóðarframleiðslu og landsframleiðslu.