Landsmenn voru 329.100 1. janúar á þessu ári og hafði fjölgað um 3.429 frá sama tíma árið 2014. Þetta jafngildir fjölgun landsmanna um eitt prósent. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Ísland í dag.
Konum og körlum fjölgaði sambærilega á árinu, samkvæmt frét Hagstofunnar, og voru karlar 1.272 fleiri.
Mikil fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en þar voru íbúar 2.530 fleiri 1. janúar 2015 en ári fyrr. Það jafngildir 1,2% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallslega varð fólksfjölgunin hins vegar mest á Suðurnesjum, þar sem fjölgaði um 2,1%, eða 466 frá síðasta ári.
Fólki fjölgaði einnig á Suðurlandi, um 280 einstaklinga (1,1%), og um 125 (0,8%) á Vesturlandi. Minni fólksfjölgun var á Norðurland eystra (0,5%). Fólksfækkun var á þremur landsvæðum, Norðurlandi vestra þar sem fækkaði um 108 manns, eða 1,4%, á Austurlandi en þar fækkaði um 28, eða 0,2% og á Vestfjörðum þar sem fækkaði um tvo eða 0,02%.
Framfærsluhlutfall var 68,4% í ársbyrjun 2015 alveg eins og ári áður. Framfærsluhlutfall er hlutfall ungs fólks (19 ára og yngra) og eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri (20–64 ára). Hækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki á vinnualdri fækkar hlutfallslega, að því er segir í umfjöllun Hagstofu Íslands.