Landsnet og Thorsil skrifuðu í dag undir samkomulag um raforkuflutninga fyrir kísilver Thorsil í Helguvík. Samkvæmt tilkynningu frá Landsneti er nú gert ráð fyrir því að rekstur kísilversins hefjist í ársbyrjun 2018.
Kostnaður við það að tengja kísilverið við meginflutningskerfi Landsnets er um 2,5 milljarðar króna, en tengingin verður gerð með lagningu 132 kílóvolta jarðstrengs á milli Fitja og Stakks, tengivirkis Landsnets, sem verið er að byggja í Helguvík. Framkvæmdir eiga að hefjast næsta haust.
Segjast hafa tryggt sér orku en ekki hvaðan hún kemur
Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, sagði í síðustu viku við Fréttablaðið að fyrirtækið hefði tryggt sér 87 megawatta orku sem áætlað er að kísilverið þurfi að jafnaði til að framleiða 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári.Hann vildi hins vegar ekki upplýsa hvaðan orkan kæmi né á hvaða verði hún yrði keypt. Hvorki Landsvirkjun né Orkuveita Reykjavíkur hafa gengið frá neinum samningum við Thorsil, en Ásgeir Marteinsson, forstjóri HS Orku, vildi ekki tjá sig um hvort fyrirtækið hyggist veita orkuna eða ekki.
Thorsil gat ekki greitt umsamin gjöld
Í DV í byrjun mánaðarins var greint frá því að Reykjaneshöfn hefði gefið Thorsil greiðslufrest á gatnagerðargjöldum vegna lóðarinnar undir verksmiðjuna. Gjöldin áttu að greiðast 30. september síðastliðinn en gjalddaganum var frestað til 15. desember. Hákon Björnsson vildi ekki upplýsa um hversu háa upphæð er um að ræða.
Thorsil er stærsti viðskiptavinur Reykjaneshafnar, sem hefur fengið greiðslufrest út nóvembermánuð til að greiða skuldir sínar. Ljóst er að litlar tekjur Reykjaneshafnar, sem hún þarf til að geta staðið við greiðslur af lánum, aukast ekki á meðan stærsti viðskiptavinur hennar greiðir ekki umsamin gjöld á réttum tíma.
Ef Reykjaneshöfn getur ekki greitt fyrir lok nóvember verður greiðslufall og sveitarfélagið Reykjanesbær er í ábyrgð fyrir skuldunum. Bærinn hefur ekki fjárhagslega getu til að hlaupa undir bagga með höfninni, enda skuldsettasta sveitarfélag landsins.
Bygging verksmiðju Thorsil er mjög umdeild í Reykjanesbæ og í ágúst samþykkti bæjarráð sveitarfélagsins að efna til íbúakosningu í nóvember vegna hennar. Samhliða var hins vegar samþykkt að íbúakosningin yrði bindandi og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hefur sagt að niðurstaða hennar skipti í raun engu máli.