Landspítalinn hefur skilað inn umsögn um fjárlagafrumvarp ársins 2023, þó ekki um þann hluta frumvarpsins sem snýr að rekstri spítalans, heldur um þann fjárlagalið sem snýr að útlögðum kostnaði ríkisins vegna leyfisskyldra lyfja. Landspítalinn ber fjárhagslega ábyrgð á þeim málaflokki og hefur gert frá 2019.
Mat spítalans er að 2,16 milljarða þurfi til viðbótar við þá 11,95 milljarða sem í fjárlagafrumvarpinu segir til um að stefnt sé á að veita til málaflokksins. Ekki sé raunhæft að gera ráð fyrir einungis 2 prósenta raunvexti leyfiskyldra lyfja frá fyrra ári eins og gert sé í fjárlagafrumvarpinu, enda hafi vöxturinn verið að meðaltali 10 prósent á milli ára á síðustu fimm ár.
Fjárveitingarnar dugi vart til að viðhalda öllum lyfjameðferðum sem eru hafnar
„Miðað við fjárlagafrumvarpið verður [...] ekkert svigrúm fyrir lyfjanefnd Landspítala að taka ný lyf í notkun á árinu 2023 og fjárveitingar munu vart nægja til að viðhalda í öllum tilvikum lyfjameðferð sem þegar er hafin,“ segir í umsögn spítalans, sem Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala skrifar undir.
Leyfisskyld lyf eru þau lyf sem eingöngu er heimilt að nota að undangengnu samþykki lyfjanefndar spítalans og eru jafnan „kostnaðarsöm eða vandmeðfarin og krefjast sérfræðiþekkingar og aðkomu heilbrigðisstarfsfólks hvort heldur er vegna gjafar, eftirlits með sjúklingi eða eftirlits með notkun lyfs“ samkvæmt því sem segir í umsögn Landspítala.
Þar segir einnig að frá því spítalinn tók við fjárhagslegri ábyrgð á leyfisskyldum lyfjum í upphafi árs 2019 hafi náðst að lækka kostnað umtalsvert með ýmsum hagræðingarverkefnum og Landspítalinn muni halda þeirri vinnu áfram.
„Nauðsynlegt er samt sem áður að gera ráð fyrir auknum lyfjakostnaði vegna nýrra kostnaðarsamra lyfja, nýrra meðferða með lyfjum sem þegar eru innleidd og vegna fólksfjölgunar og vaxandi fjölda aldraðra. Miklar framfarir hafa orðið í þróun lyfja til meðferðar við illvígum sjúkdómum og hefur það leitt til bættrar lifunar sjúklinga,“ segir í umsögn spítalans.
Landspítali ítrekar í umsögn sinni „mikilvægi þess að nægilegt fjármagn sé veitt í þennan málaflokk til að geta greitt fyrir þau lyf sem nú þegar hafa verið innleidd og til að tryggja aðgengi landsmanna að nýjum lyfjum í takt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar“.