„Að óbreyttu þarf spítalinn að skerða þjónustu sína. Slík staða er auðvitað alvarleg.“ Þetta kemur fram í umsögn Landspítalans um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem Runólfur Pálsson, forstjóri spítalans, skrifar undir.
Í umsögninni segir að Landspítalinn glími við undirliggjandi rekstrarvanda. Þótt gert sé ráð fyrir að hann verði rekinn innan fjárveitinga á yfirstandandi ári sé það vegna undirmönnunar á spítalanum og einskiptis fjárveitinga sem leysi ekki þann vanda. „Það er afar brýnt að fjárlagafrumvarpið taki á þeim áskorunum sem blasa við Landspítala og í raun heilbrigðiskerfinu öllu í lok heimsfaraldurs COVID-19. Frumvarpið verður að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem að framan er rakin, þ.e. við mönnun starfa, við endurskipulagningu og uppbyggingu þjónustu spítalans eftir faraldurinn og viðureign við undirliggjandi rekstrarvanda.“
Vantar 620 milljónir króna til að mæta lýðfræðislegum breytingum
Fjárveitingar til Landspítala eru áætlaðar 84,9 milljarðar króna á næsta ári samkvæmt frumvarpinu, sem er tæplega 3,5 milljörðum krónum meira en renna til hans í ár. Í umsögninni er bent á að þegar búið er að taka tillit til endurmats á launaflokkum og verðbóta sé raunvöxtur á framlögum 1.266 milljónir króna. Þeirri upphæð er ætlað mæta lýðfræðilegum breytingum vegna fólksfjölgunar, hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og framþróun í meðferðarúrræðum.
Þá er tiltekið að framlög til tækjakaupa á spítalanum hafi dregist saman undanfarin ár, en þau fara mest megnis fram í evrum. Í krónum talið hafa framlögin rýrnað um 20 prósent frá árinu 2018 á sama tíma og gengi evru hefur hækkað um 15 prósent. Þá á eftir að taka tillit til stóraukinnar verðbólgu í þeim löndum sem tækin eru keypt frá.
Viðvarandi mannekla
Samandregið segir í umsögninni að helstu áskoranir sem Landspítalinn standi frammi fyrir sér þrjár: erfiðleikar við að manna stöður, að endurskipuleggja og byggja upp þjónustu hans í kjölfar kórónuveirufaraldursins og að takast á við áðurnefndan undirliggjandi rekstrarvanda.
Þessi staða leiðir til þess að sparnaður verður á launalið spítalans, einfaldlega vegna þess að hann nær ekki að ráða þann fjölda sem hann þarf til að geta haldið úti þeirri þjónustu sem honum er gert að gera. Auk þess sé hætt við að spítalinn geti ekki náð að veita þjónustu í samræmi við samning um framleiðslutengda fjármögnun sem leiðir til þess að fjárveitingar verið teknar af honum. Í umsögninni segir að mikilvægt sé að spítalinn geti snúið við þessari þróun og laðað til sín fólk til starfa og haldið í það starfsfólk sem er þegar til staðar. „Lykilatriði í þeirri viðleitni eru samkeppnishæf launakjör og aðlaðandi starfsumhverfi.“
Þurfa að geta nýtt aukna getu
Í kórónufaraldrinum var starfsemi Landspítalans endurskipulögð þannig að hægt væri að sinna þeim sem sýkst höfðu af COVID-19. Samhliða var dregið úr annarri starfsemi og valaðgerðum hætt. Afleiðing þessara aðgerða eru þær að biðlistar hafa lengst og margir bíða þjónustu. Þá hafi faraldurinn kallað á breytt verklag á mörgum sviðum, meðal annars með aukinni áherslu á sýkingavarnir.
Geta Landspítalans til að framkvæma vissar rannsóknir jókst með tilkomu ýmissa tækja sem keypt voru til að greina COVID-19. Í umsögninni segir að mikilvægt sé að nýta þessa auknu getu til að auka öryggi sjúklinga. Slíkt kalli á aukin kaup á hvarfefnum og rekstarvöru sem valdi auknum útgjöldum. „Nauðsynlegt er að spítalinn hafi fjárhagslega burði til að takast á við þessi verkefni þ.e. að stytta bið eftir þjónustu og að breyta verklagi til að auka öryggi sjúklinga. Að óbreyttu hefur hann það ekki.“
Afgangur vegna erfiðleika við að manna stöður og einskiptis framlaga
Undirliggjandi rekstrarvandi er svo óleystur. Í umsögninni segir að Landspítalinn glími við langvarandi fjárhagsvanda. „Spítalinn hefur löngum verið rekinn með halla og hefur mætt honum m.a. með því að hagræða í rekstri og reyna að aðlaga starfsemina að fjárveitingum. Síðustu ár hafa verið þung sem skýrist að hluta afheimsfaraldrinum sem hefur haft veruleg áhrif á starfsemi spítalans og því hefur ekki tekist að laga rekstur að fjárheimildum.“
Á árunum 2018 til 2020 var samanlagður halli á rekstri spítalans tæplega 4,3 milljarðar króna. Í fyrra var hins vegar tæplega 2,7 milljarða króna afgangur af rekstri hans. Í umsögninni segir að sá afgangur eigi sér eðlilegar skýringar. Annars vegar sé um að ræða tæplega tveggja milljarða framlag frá heilbrigðisráðuneytinu til að mæta eldri halla. Hins vegar spili erfiðleikar við að manna stöður á spítalanum stóra rullu. „Þegar horft er framhjá þessum skýringum glímir Landspítali við undirliggjandi rekstrarvanda. Í ár er gert ráð fyrir að spítalinn verði rekinn innan fjárveitinga en það er vegna undirmönnunar á spítalanum og einskiptis fjárveitingum sem leysa ekki undirliggjandi rekstrarvanda spítalans.“