Hagnaður Landsvirkjunar á fyrri hluta ársins nam 63,9 milljónum dollara, jafnvirði um 8,5 milljarða króna, en var 34,5 milljónir dollara á sama tímabili 2014. Að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, þá gekk reksturinn almennt vel á fyrri helmingi ársins. Sterkt sjóðstreymi gerði félaginu kleift að halda skuldalækkun áfram, en nettó skuldir lækkuðu um 23 milljarða króna á tímabilinu. Í uppgjörstilkynningu segir Hörður að ýmis jákvæð teikn megi lesa úr árshlutareikningnum. Blikur séu þó á lofti í ytra umhverfi þegar litið er til skemmri tíma. „Álverð hefur lækkað mikið á síðustu mánuðum, sem hefur neikvæð áhrif á tekjur Landsvirkjunar. Þá hefur köld tíð valdið því að innrennsli í lón Landsvirkjunar hefur verið með minnsta móti í sumar,“ segir hann.
„Ýmis jákvæð teikn má lesa úr árshlutareikningnum núna þegar rekstrarárið er hálfnað. Lykilkennitölur styrkjast, eiginfjárhlutfall er 42,2% miðað við 39,9% um áramótin og skuldsetning samstæðunnar mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir lækkar úr 6,6 í 5,8. Á fyrri helmingi ársins urðu þau jákvæðu tíðindi að öllum fyrirvörum var aflétt í raforkusölusamningi við PCC BakkiSilicon hf. Þá hófust framkvæmdir við byggingu Þeistareykjavirkjunar á tímabilinu.
Mikil eftirspurn er eftir raforku á Íslandi, frá fjölbreyttum iðnaði sem er tilbúinn að greiða hærra verð en áður. Landsvirkjun stefnir á að nýta öll þau tækifæri sem fyrirtækið hefur til aukinnar orkuvinnslu, til að mæta þessari áhugaverðu eftirspurn.“
Rekstrartekjur Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins námu 215 milljónum dollara, jafnvirði um 28,7 milljarða króna. Það er 6,2 prósent hækkun frá sama tímabili árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 169,3 milljónum dollara, jafnvirði um 22,5 milljörðum króna. Nettó skuldir lækkuðu um 171,9 milljónir dollara á tímabilinu, eða um 22,9 milljarða króna. Í lok júní námu skuldir 2.018,6 milljónum dollara, eða 268,5 milljörðum króna.