Meðalsöluverð Landsvirkjunar til iðnaðar á síðasta ári nam 25,9 Bandaríkjadölum á megavattstund, sem er nánast það sama og árið 2013, en þá var meðalverðið 25,8 dalir. Sveiflur í tekjum haldast að miklu leyti í hendur við álverð en árið 2011 var meðalverðið til iðnaðar rúmlega tíu prósent hærra, eða 28,7 Bandaríkjadalir.
Rekstur Landsvirkjunar styrktist nokkuð á árinu 2014, miðað við upplýsingar sem birtast í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár. Heildartekjur fyrirtækisins námu 438,3 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 56,9 milljörðum króna. Hagnaðurinn nam 146,9 milljónum Bandaríkjadala, eða ríflega nítján milljörðum króna.
Fyrirtækið greiddi niður skuldir upp á 238,7 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 31 milljarði króna. Heildarskuldir námu í árslok í fyrra 2,1 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 284,8 milljörðum króna. Heildareignir fyrirtækisins, þar helst virkjanirnar, nema 4,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 550 milljörðum króna.