Landsvirkjun svarar ekki spurningum um kostnað og umfang vinnu vegna mögulegrar lagningar sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Þetta kemur fram í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn frá flokksbróður sínum Ásmundi Friðrikssyni.
Ásmundur óskaði eftir upplýsingum um það hver kostnaður Landsvirkjunar hefði verið frá árinu 2009 við könnun á mögulegri hagkvæmni þess að leggja sæstreng. Hann vildi einnig vita hversu marga fundi fyrirtækið hefði átt með fulltrúum breskra stjórnvalda eða fyrirtækja og við hverja hefði verið rætt. Þá vildi hann vita hver ferðakostnaðurinn væri vegna funda og hversu margir vinna beint að þessum málum hjá Landsvirkjun.
Í svari Ragnheiðar Elínar kemur fram að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafi leitað til Landsvirkjunar þar sem ráðuneytið hafi þessar upplýsingar ekki undir höndum. Landsvirkjun svaraði því til að fyrirtækið starfi í alþjóðlegri samkeppni um raforkusölu til mögulegra viðskiptavina þar sem miklir viðskiptalegir hagsmunir séu í húfi. „Upplýsingar um markaðssetningu fyrirtækisins til einstakra fyrirtækja, iðngreina eða markaðssvæða og fundi því tengdu séu því að jafnaði of viðkvæmar til þess að þær séu gerðar opinberar,“ segir í svarinu.
Í svarinu kemur fram að unnið sé að forathugun á sæstreng en það sé hluti af því markaðsstarfi sem fari fram innan fyrirtækisins. Greiningar- og markaðsstarf nýtis ólíkum tækifærum til framtíðar og það gæti ekki rétta mynd að greina kostnað við alla verkþætti niður á sæstreng sem einstakan viðskiptavin, „auk þess sem hér sé um að ræða upplýsingar viðskiptalegs eðlis sem ekki sé unnt að veita.“
Bent er á það í svarinu að samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra frá því í júní 2013 er Landsvirkjun undanþegin ákvæðum upplýsingalaga.