Kaup á fasteign er fyrir okkur flest einhver stærsta fjárhagslega ákvörðun sem við tökum á lífsleiðinni. Kaupunum fylgir lántaka upp á margar milljónir króna, sem við skuldbindum okkur til að greiða til baka á næstu árum eða áratugum. Þegar svo háar fjárhæðir eru í spilunum er best að vita sem mest um hvað málið snýst. Lánaformin sem bjóðast eru mismunandi og eitt lánaform hentar ekki öllum. Það sem hentar einum lántakanda getur verið ómögulegt fyrir annan.
Þessi grein er hluti af greinarflokki um þau atriði sem varða húsnæðislánatöku og önnur lán á Íslandi. Áður hefur birst grein um vaxtakjörin sem lesa má hér.
Jafngreiðslur eða jafnar afborganir
Húsnæðislán viðskiptabankanna eru ýmist jafngreiðslulán eða lán með jöfnum afborgunum. Munurinn á lánaformunum er sá að af jafngreiðsluláni er greidd sama mánaðarlega upphæð út lánstímann en af láni með jöfnum afborgunum er greitt mest í upphafi en upphæðin fer lækkandi eftir því sem höfuðstóll lánsins lækkar.
Þegar talað er um afborgun er átt við hvað greitt er af höfuðstól lánsins, en með greiðslu er átt við heildargreiðslu af láninu, það eru bæði afborganir og vaxtagreiðslur.
Jafngreiðslulán (annuitet)
Lántakinn greiðir sömu upphæð mánaðarlega út lánstímann. Samsetning greiðslunnar á milli vaxta og afborgana er aftur á móti mismunandi á lánstímanum. Vaxtagreiðslur vega þungt í upphafi og afborganir af höfuðstól minna. Þetta snýst við þegar líður á lánstímann.
Ef jafngreiðslulánið er verðtryggt hækkar greiðslan með verðbólgu.
Lán með jöfnum afborgunum
Mánaðarleg heildargreiðsla af láni með jöfnum afborgunum er ekki sú sama út lánstímann. Afborgun af höfuðstólnum, það er láninu sjálfu, er alltaf sú sama frá einum mánuði til annars, en vextirnir eru hærri í upphafi og þess vegna eru heildargreiðslur mestar í upphafi. Þær fara síðan lækkandi þegar líður á lánstímann, vegna þess að höfuðstóllinn fer lækkandi og þar með vaxtagjöld lánsins.
Óverðtryggð húsnæðislán með jöfnum afborgunum hafa notið aukinna vinsælda síðastliðin ár. Viðskiptabankarnir hafa boðið upp á föst vaxtakjör til allt að fimm ára. Það þýðir að vextirnir eru þeir sömu í fimm ár eftir að lánið er tekið, en að þeim tíma loknum verða vextirnir breytilegir. Þá ákveður bankinn hverjir óverðtryggðir vextir eru. Það metur hann út frá verðbólgu, stýrivöxtum Seðlabankans auk álags sem kalla má óvissuálag.