Lánshæfismatsfyrirtækið Moody's lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Japans í morgun úr Aa3 í A1, eða um einn flokk. Þetta er fyrsta lækkun á lánshæfiseinkunn hjá stóru lánshæfismatsfyrirtækjunum þremur, Fitch, Standard & Poor's og Moody's, frá því árið 2012. Þá versnuðu horfur hjá mörgum ríkissjóðum allt þar til seðlabankar heimsins gripu til sameiginlegra aðgerða með fjárinnspýtingum til að tryggja aðgengi fyrirtækja að lánsfé.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur sagt nýjustu hagtölur í Japan hafa verið „sjokkerandi“ en hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi þessa árs var neikvæður um 1,6 prósent samanborið við sama tímabil í fyrra. Þá hafa örvunaraðgerðir japanska seðlabankans ekki skilað árangri.
Meginástæða lækkunar á lánshæfi Japans er sú að ekki hefur en verið gripið til trúverðugra aðgerða til þess að bæta stöðu efnahagsmála og tryggja betur fjárhag ríkissjóðs, samkvæmt frásögn Wall Street Journal. Fréttirnar hafa valdið titringi á mörkuðum og hafa áhyggjur af því að Japan og jafnvel fleiri ríki séu að leið inn í djúpa kreppu.
Japan er eitt skuldugasta ríki heimsins með opinberar skuldir ríkissjóðs upp á um 230 prósent af árlegri landsframleiðslu landsins samkvæmt upplýsingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Japanska hagkerfið er það þriðja stærsta í heiminum, á eftir Bandaríkjunum og Kína.