Hagfræðingurinn Lars Cristensen hefur látið af störfum sem aðalhagfræðingur Danske bank. Hann ætlar að stofna eigið ráðgjafafyrirtæki, og mun meðal annars sinna ráðgjöf á Íslandi.
Cristensen greinir frá starfslokum sínum á Facebook-síðu sinni. Þar kemur fram að ákvörðun hans hafi átt sér nokkuð langan aðdraganda. Hann hafi átt góðan feril í bankanum og hann verði alltaf „hans banki“. Nú sé hins vegar kominn tími til að breyta til og halda áfram.
Lars Cristensen er Íslendingum vel kunnugur. Hann hefur oft tjáð sig um ástandið á Íslandi, var meðal annars einn þeirra sem skrifaði þekkta skýrslu um efnahagsástandið fyrir Danske bank árið 2006. Þar var því spáð að alvarlegt samdráttarskeið væri framundan á Íslandi, miklar skuldir og viðskiptahalli gengju ekki til lengdar. Hann hefur líka tjáð sig um ástandið eftir hrun, meðal annars hefur hann varað við skuldaniðurfellingum.