Lars Lagerback, annar þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, útilokar ekki að halda áfram að þjálfa liðið eftir Evrópumótið, en lokakeppni mótsins fer fram í Frakklandi næsta sumar. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Lars að hann haldi möguleikanum opnum.
„Ég hreinlega veit það ekki. Ég er samningsbundinn fram yfir EM 2016 ef við komumst þangað og við höfum ekkert rætt um framtíðina, við sjáum bara hvað gerist. Ég segi alltaf varðandi framtíðina að ég loka engum dyrum, en ég er bara að einbeita mér að því að koma okkur á EM og veit ekki hvað gerist eftir það. Þegar maður eldist hugsar maður hvort maður vilji gera eitthvað annað, en eins og ég segi veit ég ekki hvað ég mun gera,“ segir hann í viðtali við blaðið.
Eins og kunnugt er hefur íslenska landsliðinu gengið afar vel undir stjórn Lars og Heimis Hallgrímssonar. Liðið situr í efsta sæti síns riðils í undankeppni EM 2016 með 15 stig eftir 6 leiki. Það á því mikla möguleika á að komast á stórmót í fyrsta sinn. Kjarninn fór í júní síðastliðnum yfir þróun íslenska karlalandsliðsins í ítarlegri fréttaskýringu.