Starfshópur um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal, sem skipaður var í febrúar árið 2021, skilaði fyrir skemmstu af sér plaggi með ýmsum tillögum og skipulagshugmyndum um framtíð Laugardalsins.
Borgarráð ræddi um tillögurnar á fundi sínum síðasta fimmtudag og vísaði þeim áfram til umfjöllunar í skipulags- og samgönguráði, menningar-, íþrótta og tómstundaráði og íbúaráði Laugardals, en einnig stendur til að borgarstjóri kynni þessar tillögur og hugmyndir á íbúafundi í Laugardalnum á næstunni.
Lítið nýttum bílastæðum gæti verið fækkað
Í umfjöllun starfshópsins er því meðal annars velt upp hvort það gæti verið „falleg framtíðarsýn“ að sjá Laugardalinn sem bíllaust íþrótta- og útvistarsvæði og nefnt að þetta gæti gerst í skrefum, þar sem fyrst yrði lokað fyrir gegnumakstur um Engjaveg og svo skoðað í framhaldinu hvort einhver hluti lítið notaðra bílastæða gætu umbreyst í græn almannarými.
Fjallað er um fyrirferðamikil bílastæðin sem eru við íþróttamannvirkin í vesturhluta Laugardals og bent á að þau séu í það heila „lítið notuð“ og í raun einungis að hluta til fyrir þau tilfelli sem þau voru hugsuð fyrir, stórviðburði sem haldnir eru í Laugardalnum.
Á undanförnum árum hefur t.d. öllum bílastæðum beint fyrir framan Laugardalsvöll verið lokað þegar þar fara fram viðburðir sem margir áhorfendur sækja, til að koma í veg fyrir umferðarteppur í nærumhverfinu. Áhorfendum hefur í staðinn verið verið bent á að nota aðra ferðamáta eða að leggja bílum sínum fjær og ganga ofan í Laugardal.
„Engjavegur var hugsaður sem hægaksturgata í dalnum og kannski helst til að flýta fyrir rýmingu þegar stórviðburðir eru í dalnum. Raunin er að margir nota veginn til að „stytta“ sér leið og aka greitt í gegn. Oft hefur verið nefnt að loka á gegnumakstur í dalnum,“ segir í plaggi starfshópsins, sem var samkvæmt skipunarbréfi settur saman af sviðsstjórum umhverfis- og skipulagssviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs borgarinnar ásamt skrifstofustjóra eignaskrifstofu og fulltrúa Íþróttabandalags Reykjavíkur.
Ný íþróttahöll á milli þeirrar gömlu og Suðurlandsbrautar
Málefni nýrra þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu, boltaíþróttir innanhúss og frjálsar íþróttir hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár og hafa þau verkefni verið í sérfarvegi í viðræðum á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt því sem fram kemur í skjali starfshópsins gera hugmyndir þó ráð fyrir því að nýr Laugardalsvöllur verði á sama stað og núverandi völlur og að ný þjóðarhöll rúmist á milli gömlu Laugardalshallarinnar og Suðurlandsbrautar, með beinni tengingu við borgarlínustöð á Suðurlandsbraut.
Þjóðarleikvangur frjálsíþrótta er svo fyrirhugaður á því svæði sem í dag er æfingasvæði Þróttar, meðfram Suðurlandsbrautinni, en í staðinn er Þróttur að fara að fá það svæði sem hefur verið nýtt undir frjálsar íþróttir norðan Laugardalslaugar.
Í umfjöllun starfshópsins má lesa að innan hans hafi orðið talverð umræða um hvort núverandi göngu- og hjólastígar við Suðurlandsbrautina verði óbreyttir sem grænn kafli í stígakerfinu eða hvort hjólastígurinn t.d. komi til með að fara upp að Suðurlandsbrautinni er hún umbreytist í borgargötu með tilkomu Borgarlínu.
Starfshópurinn ræddi um að stækka svæðið fyrir völlinn og stúku, sem á að vera fyrir allt að 2.000 manns, með því að færa stíginn. Einnig ræddi starfshópurinn um hvort framlengja ætti akveginn Vegmúla inn í Laugardalinn og hvort Engjavegurinn ætti að halda sér í óbreyttri mynd á þessum slóðum.
„Líkleg niðurstaða að Vegmúli framlengist ekki inn í dalinn samkvæmt gildandi skipulagi og að Engjavegi verði lokað fyrir gegnumumferð. Vegmúli myndi fara illa saman með borgarlínustöð og gera samtengingu frjálsíþróttahallar og frjálsíþróttavallar erfiða,“ segir um þetta í umfjöllun starfshópsins.
Mikil umhverfisgæði í trjábeltinu meðfram Suðurlandsbraut
Um óbyggða reitinn á horni Engjavegar og Suðurlandsbrautar er fjallað í tillögum starfshópsins. Þar segir að áform séu um uppbyggingu grænna þróunarlóða á reitnum í takt við græna ásýnd Laugardals, en jafnframt að mikilvægt sé að „hugsa fyrir framlengingu trjágangastígsins alveg upp að Borgarlínustöð.“
Samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur fram til ársins 2040 er gert ráð fyrir því að á mjóum og löngum reit sem kallast M2g og liggur upp við Suðurlandsbrautina byggist upp lágreist byggð á 2-4 hæðum með verslun, þjónustu, skrifstofum og íbúðum.
Í skjali starfshópsins segir að skynsamlegt gæti verið að endurskoða þessa samfelldu byggð norðan við Suðurlandsbrautina, en stefna þess í stað fyrst og fremst að afmarkaðri uppbyggingu í tengslum við borgarlínustöðvar.
„Mögulegt byggingarsvæði er háð því að Suðurlandsbraut verði endurhönnuð og skal miða við að ekki verði gengið á græn útivistar- og íþróttasvæði í Laugardalnum. Ljóst er að svæðið er mjög krefjandi í útfærslu vegna þrengsla, hæðarmunar, aðliggjandi skjólbeltis og stofnstígs. Mikil umhverfisgæði felast í trjábeltinu meðfram Suðurlandsbraut og stígunum í skjóli þess,“ segir í umfjöllun starfshópsins.
Húsbílabyggð blandist illa við hinn almenna ferðamann
Langtímastæði fyrir húsbíla hafa undanfarin ár verið á tjaldsvæðinu í Laugardalnum, í næsta nágrenni við Laugardalslaugina, en nokkur fjöldi fólks hefur haft þar fasta búsetu í bílum sínum.
Í skjali starfshópsins segir að finna þurfi langtímastæði fyrir húsbíla á einhverjum öðrum stað í Reykjavík.
„Ekki í Laugardalnum þar sem þeir blandast illa við hinn almenna ferðamann,“ segir í umfjöllun starfshópsins um reitinn sem fer undir tjaldsvæðið og farfuglaheimilið í Laugardalnum, sem mögulega verður stækkað einn daginn, samkvæmt deiliskipulagi.
Möguleg uppbygging fyrir aftan stúkuna við Laugardalslaug
Í umfjöllun starfshópsins segir að til standi að ráðist verið í hugmyndasamkeppni um Laugardalslaug og nærumhverfi hennar. Jafnframt verði því tengt skoðaðir uppbyggingarmöguleikar norðan stúkunnar við sundlaugina, en þar er í dag innkeyrsla út frá Sundlaugavegi, nokkur bílastæði og ruslagámar.
Einnig er minnst á að bílastæðið sem er næst innganginum að líkamsræktarstöð World Class þveri „mikilvægan stíg“ sem liggi meðfram Laugardalslaug, Laugum og stúku Laugardalsvallar. „Viðskiptavinir og starfsfólk Lauga reyna að finna þar stæði sem framkallar óæskilegt hringsól og þverun stígsins í leit að stæðum og býr þannig til ákveðið óöryggi gagnvart gangandi og hjólandi umferð,“ segir í umfjöllun starfshópsins.