Laun á Íslandi hækkuðu um 2,3 prósent milli maí og júní, samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.Vísitalan hefur ekki hækkað jafn mikið milli mánaða síðan í febrúar 2013. Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur launavísitalan hækkað um 7,1 prósent en vísitalan byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands.
Á sama tíma og launavísitalan hækkaði um 2,3 prósent þá hækkaði kaupmáttur launa um 2,0 prósent frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 5,5 prósent.Vísitala kaupmáttar launa er reiknuð út frá vísitölu launa og neysluverðsvísitölunni, sem mælir verðbólgu í landinu. Almennt eykst kaupmáttur launa þegar laun hækka umfram verðlag en lækka þegar verðbólga er meiri en launahækkanir.
Hér að neðan má sjá hvernig vísitala launa og vísitala kaupmáttar hefur þróast frá því í júní 2014. Vísitölurnar eru stilltar í gildið 100 í upphafi tímabilsins og sýna því hlutfallslega hækkun frá júní 2014.
Fram kemur í frétt Hagstofunnar um málið í dag að í vísitölunum gætir áhrifa nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru í maí síðastliðnum. Þar var kveðið á um sérstaka hækkun kauptaxta, breytinga á launatöflum auk samkomulags um launaþróunartryggingu að lágmarki 3,2 prósent frá 2015. Þá gætir einnig áhrif vegna kjarasamninga ríkis og Kennarasambands Íslands annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar sem undirritaðir voru á öðrum ársfjórðungi 2014 og í ársbyrjun 2015.