Málsvarnarlaun og þóknanir verjenda og réttargæslumanna í sakamálum hafa verið hækkuð um 65 prósent. Tímakaup verjenda var hækkað úr tíu þúsund krónum í 16.500 krónur með ákvörðun dómstólaráðs í janúar, en Morgunblaðið greinir frá henni í morgun.
Auk þess er tekið fram í hinum nýju reglum að málsvarnarlaun skuldi aldrei vera lægri en 78 þúsund krónur. Áður var lágmarkið 46.700 krónur. Að lokum hækkar lágmarksþóknun verjenda og réttargæslumanna fyrir að mæta við fyrirtöku eða dómara úr 20 þúsund krónum í 52 þúsund krónur, eða um 160 prósent.
Í blaðinu er haft eftir Ingimari Ingasyni, framkvæmdastjóra Lögmannafélags Íslands, að þessar fjárhæðir hafi verið óbreyttar árum saman og að lögmenn hafi talið knýjandi þörf á að þær yrðu leiðréttar. Því sé um margra ára leiðréttingu að ræða í einum pakka.