Þingmenn stjórnarflokkanna í allsherjar- og menntamálanefnd hafa lagt til breytingar á frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga, sem fela í sér að börnum og fólki með börn, sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir 1. ágúst 2021, skuli verða veitt dvalarleyfi hérlendis. Fyrir utan þetta eru engar efnislegar breytingar lagðar til við frumvarp dómsmálaráðherra.
Í breytingatillögu meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem lögð var fram á þingi í dag, er nýju bráðabirgðaákvæði bætt við lagafrumvarp ráðherra þess efnis að Útlendingastofnun skuli gefa út dvalarleyfi til handa forsjáraðila barna sem sóttu um alþjóðlega vernd hérlendis fyrir 1. ágúst 2021, að því gefnu að umsókn forsjáraðila hafi borist fyrir 1. mars 2023. Hið sama gildir ef barn fæddist hér á landi á meðan umsókn forsjáraðila þess um alþjóðlega vernd var í vinnslu, ef umsókn foreldranna barst fyrir 1. ágúst 2021.
Nánasti aðstandandi útlendings sem fær útgefið dvalarleyfi samkvæmt þessu ákvæði mun einnig geta fengið dvalarleyfi hérlendis á grundvelli fjölskyldusameiningar, og það sama mun eiga við um börn viðkomandi eldri en 18 ára sem ekki hafa gengið í hjúskap, hafi þau einnig sótt um alþjóðlega vernd hérlendis fyrir 1. ágúst 2021 og séu enn á landinu, ef fjölskyldan samanstandi af að minnsta kosti einu barni undir 18 ár aldri.
Dvalarleyfi samkvæmt þessu ákvæði skal veitt til eins árs, og heimilt verður að endurnýja það og getur það einnig orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, samkvæmt því sem fram kemur í breytingatillögu meirihlutans.
Ætla má að þessi breytingatillaga snerti nokkurn hóp fólks í hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem verið hafa hér á landi frá árinu 2021. Í nefndaráliti meirihlutans segir að veirufaraldurinn hafi gert yfirvöldum erfitt um vik að framkvæma endanlegar ákvarðanir stjórnvalda um brottvísanir og frávísanir og í landinu sé því „nokkur hópur barna og forsjáraðila þeirra sem hafa dvalist hér um lengri tíma í ólögmætri dvöl“.
„Stjórnvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi fjölskyldur uppfylla ekki skilyrði laganna til að fá alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem er komin upp þykir þó rétt, í stað þess að framkvæmdar verði brottvísanir eða frávísanir í þessum málum, að opnað sé tímabundið á möguleika forsjáraðila þessara barna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli atvinnuþátttöku en þeim dvalarleyfum fylgja dvalarleyfi fyrir börn þeirra,“ segir í nefndaráliti meirihlutans.
Þar segir einnig að með þessu úrræði fari viðkomandi einstaklingar úr kerfi stjórnvalda, sem ætlað er umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki, í þá stöðu sem gildi um aðra þriðja ríkis borgara sem koma hingað til lands á grundvelli atvinnuþátttöku. Það sé því á ábyrgð forsjáraðila að útvega sér atvinnu hér á landi, örugga sjúkratryggingu og eigið húsnæði að ákveðnum tíma liðnum. Þá beri viðkomandi, við endurnýjun leyfisins, að uppfylla almenn skilyrði laga um útlendinga líkt og gildir um aðra dvalarleyfishafa.
Engar aðrar breytingar af hálfu meirihlutans
Aðrar efnislegar breytingar eru ekki lagðar til við frumvarp dómsmálaráðherra, sem verið hefur til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd frá því undir lok októbermánaðar. Verið er að leggja þingmálið fram, þó í breyttri mynd, í fimmta sinn og ætla má að það verði tekið til 2. umræðu á þingi á næstu dögum.
Ýmis atriði í frumvarpinu hafa verið gagnrýnd, ekki síst sú boðaða breyting að grunnþjónusta til umsækjenda um alþjóðlega vernd verði felld niður 30 dögum eftir að endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi um umsókn hans til verndar liggur fyrir, en Samtök íslenskra sveitarfélaga sögðust til dæmis telja að sú breyting hefði í för með sér fjölgun heimilislausra á Íslandi, aukið álag á félagsþjónustu sveitarfélaga og aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin.
„Óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar neyðar hlýtur ávallt að vera aukin hætta á því að hlutaðeigandi einstaklingar verði berskjaldaðri fyrir hver kyns misneytingu, mansali og ofbeldi,“ sagði einnig í umsögn sambandsins til allsherjar- og menntamálanefndar. Landlæknisembættið hefur einnig sagt í umsögn til þingsins að óásættanlegt sé að komið geti upp sú staða að fólk verði svipt rétti til heilbrigðisþjónustu.
Dómsmálaráðuneytið hefur brugðist við athugasemdum sem snerta þetta með því að benda á að einungis barnlausir og fullorðnir einstaklingar, sem væru hér á landi í ólögmætri dvöl og neiti samvinnu við stjórnvöld um að fara af landi brott, geti átt það á hættu að enda á götunni án nokkurs réttar til þjónustu.
Í athugasemd sem dómsmálaráðuneytið gerði var áréttað að einstaklingur sem er í þessari stöðu á rétt á „margvíslegri aðstoð frá stjórvöldum við að fara af landi brott, s.s. greiðslu fargjalds og ferðastyrks og eftir atvikum enduraðlögunarstyrks sem getur numið allt að 450 þúsund krónum“ og að það verði að „teljast eðlileg krafa að einstaklingur hlíti lögmætum ákvörðunum stjórnvalda“.
Í nefndaráliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar segir um þetta atriði að fram hafi komið fyrir nefndinni að reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem eru ekki sjúkratryggðir á Íslandi gerði ráð fyrir neyðaraðstoð fyrir einstaklinga sem væru ekki sjúkratryggðir hér á landi. Einnig hefði verið fyrir nefndinni verið rætt um lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem úrræði fyrir þessa einstaklinga.
„Reglurnar gera ráð fyrir að erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skuli í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Meiri hlutinn undirstrikar að þessi úrræði eru neyðarúrræði sem uppfylla þær kröfur sem 76. gr. stjórnarskrárinnar gerir og tryggir að einstaklingar eigi ekki á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmálans. Því ættu útlendingar ekki að falla utan allrar þjónustu eða framfærslu á vegum hins opinbera,“ segir í nefndarálitinu.