Dómsmálaráðuneytið hefur kynnt áform um lagasetningu þess efnis að sameina alla átta héraðsdómstóla landsins í eina stofnun í samráðsgátt stjórnvalda.
Til stendur að vinna frumvarp um málið í ráðuneytinu og markmið hinnar fyrirhuguðu lagasetningar er að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri héraðsdómsstigsins. Umsagnarfrestur um áformin hefst í dag og stendur til 9. september.
Í umfjöllun um áformin á vef samráðsgáttarinnar segir að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi hinn 23. mars síðastliðinn skipað starfshóp um sameiningu héraðsdómstóla. Það hafi meðal annars verið gert á grundvelli ábendinga Ríkisendurskoðunar sem settar voru fram í skýrslu sem send var til ráðuneytisins 29. apríl 2020. Þar kom fram að sameining héraðsdómstólanna sé skilvirkasta og árangursríkasta leiðin að aukinni samræmingu innan dómskerfisins.
Starfsstöðvar á landsbyggðinni forsenda
Dómsmálaráðuneytið segir að forsenda sameiningarinnar af þess hálfu sé að sameinaður dómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni, en ekki kemur fram í kynntum áformum hversu margar þær eiga að vera. „Horft er til þess að efla og styrkja þessar starfsstöðvar með nýjum verkefnum og byggja þar á verkefni um svonefnda réttarvörslugátt og því að koma á fót stafrænni meðferð dómsmála. Með breyttu fyrirkomulagi héraðsdómstólanna má ætla að ná megi fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og markvissu eftirliti með henni. Þá má ætla að fjárframlög og mannauður dómstólanna muni nýtast betur og aukið hagræði nást við meðferð dómsmála borgurunum til hagsbóta.“
Þá á breytingin að fela í sér að hægt verði í ríkari mæli að sinna málum óháð starfsvettvangi dómara, styrkja stjórnun héraðsdómsstigsins og faglegan grundvöll fyrir starfsemi dómstigsins á landsbyggðinni.