Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld ættu að veita einstaklingum frekari stuðning við fyrstu húsnæðiskaup, en hann leggur til að þeir fái auknar heimildir til að ráðstafa séreignarsparnaði sínum skattfrjálst. Þetta kemur fram í nýjum drögum að frumvarpi ráðherrans um lífeyrisgreiðslur og tilgreinda séreign sem nálgast má í Samráðsgátt stjórnvalda.
Liður í lífskjarasamningnum
Drögin voru kynnt á vef Stjórnarráðsins í síðustu viku, en þar kemur fram að efni frumvarpsins væri liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við gerð lífskjarasamningsins frá árinu 2019. Í þeim samningi skuldbundu stjórnvöld sig meðal annars að hækka lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða og að ráðstafa mætti séreignarsparnað til húsnæðiskaupa eða til lækkunar húsnæðislána.
Frumvarpið var áður lagt fram í apríl í fyrra, en þá lagði efnahags- og viðskiptanefnd þingsins til að það yrði endurskoðað með tilliti til þeirra umsagna sem bárust um það. Eftir að hafa unnið úr umsögnunum hefur ráðherrann nú lagt fram frumvarpið aftur með nokkrum breytingum.
Í nýju frumvarpi er mótframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð hærra, auk þess sem sjóðfélagar geta ráðstafað hluta af því framlagi í svokallaðri tilgreindri séreign. Þessa tilgreindu séreign munu sjóðfélagar svo geta nýtt sér skattfrjálst upp í fyrstu fasteignakaupin sín.
Aukin eftirspurn gegn markmiðum Seðlabankans
Í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika segir Seðlabankinn að mikið ójafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaðnum sem hafi leitt til mikillar hækkunar á húsnæðisverði nýlega. Samkvæmt bankanum ýttu margir þættir undir eftirspurn eftir að farsóttin náði til landsins, t.a.m. aukinn sparnaður vegna takmarkaðra neyslumöguleika, mikil kaupmáttaraukning heimila og vaxtalækkanir Seðlabankans.
Bankinn segir að ójafnvægið sem ríkir á húsnæðismarkaðnum bendi til þess að áhætta á bólumyndun sé að aukast töluvert þessi misserin. Hins vegar vonast hann til þess að vaxtahækkanir undanfarinna mánaða og þrengri skilyrði fyrir lántöku minnki þetta ójafnvægi með því að draga úr eftirspurn.
Aftur á móti má búast við því að auknar heimildir til skattfrjálsrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði í fyrstu fasteign hafi þveröfug áhrif og auki eftirspurn á húsnæðismarkaði, þar sem þær auka aðgengi heimila að fjármagni til húsnæðiskaupa. Ef slíkum eftirspurnarkippi er ekki mætt með samsvarandi aukningu framboðs mun húsnæðisverð hækka enn frekar.
Bjarni segir í frumvarpi sínu að ráðstöfun séreignarsparnaðar til íbúðakaupa auðveldi heimilum með meðaltekjur og lágar tekjur að fara á íbúðamarkað og styrki eiginfjárstöðu þeirra. Samkvæmt nýútgefinni greiningu ASÍ hefur úrræðið, sem hefur verið til í einhverri mynd frá árinu 2014, þó fyrst og fremst gagnast tekjuhæstu hópum samfélagsins.
Áhrif aðgerðarinnar á eftirspurn á fasteignamarkaðnum eru ekki metin í frumvarpinu, en þó er bætt við að almennt hækki fasteignaverð með fleiri úrræðum til þess að styðja við fasteignakaup. Aftur á móti segir ráðherrann að aðgerðin muni að öllum líkindum auka íbúðafjárfestingu, en ekki sé ljóst hversu mikil sú aukning verði.