Niðurgreiðsla ríkisstjórnarinnar á völdum verðtryggðum húsnæðislánum og heimild sem hún veitti fólki til að nota séreignarlífeyrissparnað sinn til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána, sem saman eru kölluð leiðréttingin, valda því að Íbúðalánasjóður tapar 900 til 1.350 milljónum króna á ári vegna vaxtataps. Um er að ræða nærri helming hreinna vaxtatekna sjóðsins, sem er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar Íbúðalánasjóðs með ársreikningi hans sem var birtur í gær.
Þar segir einnig að "í bréfi velferðarráðuneytisins dagsettu 19. desember 2014 kemur fram að það sé skilningur bæði félags- og húsnæðismálaráðherra og fjármálaráðherra að Íbúðalánasjóði verði bætt þau neikvæðu áhrif sem kunna að verða á afkomu sjóðsins vegna höfuðstólslækkunar húsnæðisskulda, sbr. lög nr. 35/2014 og segir jafnframt að sú afstaða hafi einnig komið fram á fundi fulltrúa Íbúðalánasjóðs þann 18. desember 2014 með embættismönnum ráðuneytanna og forsætisráðuneytisins. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti tjón sjóðsins verður bætt og eiga stjórnvöld í samráði við sjóðinn eftir að útfæra það nánar. Ekki er færð krafa á ríkissjóð vegna þessa tjóns."
Íbúðalánasjóður hagnaðist um 3,2 milljarða króna á síðasta ári.
Hefur kostað ríkið 53,5 milljarða króna frá 2009
Vandamál Íbúðalánasjóðs hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarin ár. Frá árinu 2009 hefur ríkið þurft að leggja Íbúðalánasjóði til 53,5 milljarða króna til að halda honum gagnandi. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um fjárlög fyrir árið 2015 var vakin athygli á því að gert sé ráð fyrir að árlegt tap sjóðsins verði um eða yfir þrír milljarðar króna næstu fimm árin, eða samtals um 15 milljarðar króna hið minnsta.