Hjón sem keyptu sér einbýlishús fyrir 75 milljónir króna árið 2005, greiddu lánin af því að mestu upp árið 2008 og seldu húsið árið 2012 fyrir meira en uppreiknað kaupverð að viðbættum endurbótum, fá 3,6 milljónir króna í leiðréttingu. Eftirstöðvar skulda þeirra í dag eru um sjö milljónir króna og því fá hjónin niðurfellt um helming eftirstöðvanna. Þetta kemur fram í bréfi sem annað hjónanna sendi Kjarnanum.
Kjarninn hvetur lesendur til að senda sér fleiri dæmi um niðurstöðu skuldaniðurfellinga á ritstjórn@kjarninn.is.
Bréf lesandans:
„Þú gætir ekki skáldað upp jafn fráleitt dæmi um ráðstöfun almannafjármuna og þetta hér. Ég sótti um „leiðréttinguna” gegn eigin sannfæringu, með þeirri röksemd að ef þeir sem væru andsnúnir uppátækinu sæktu ekki um, þá myndu kjósendur Framsóknarflokks einir útdeila sjálfum sér tugum milljarða.
Við hjónin keyptum einbýlishús fyrir 75m árið 2005 og tókum lán fyrir tæplega helmingi kaupverðs. Seint á árinu 2008 greiddum við lánin upp að mestu leyti - annað þeirra að fullu, - eftirstöðvar hins lánsins eru dag eru rétt rúmar 7m. Við seldum húsið árið 2012 - söluverðið var hærra en nam uppreiknuðu kaupverði að viðbættum endurbótum. Húsið hækkaði semsagt umfram verðlag. Við keyptum okkur íbúð í miðbænum í staðinn, fluttum eftirstöðvar lánsins með okkur. Íbúðin sem var keypt árið 2012 hefur haldið í við verðlag undanfarin tvö ár.
Við fáum nú 3,6 milljónir í “leiðréttingu” - þar af 1,2 milljónir vegna láns sem var að fullu greitt árið 2008. Þessi “leiðrétting" nemur 50% af eftirstöðvum lánsins. Við þurfum ekkert á þessu að halda - þetta breytir engu fyrir okkur. Forsendubresturinn er enginn, við vitum hvernig verðbólga hefur verið á Íslandi undanfarna áratugi.
Svona dæmi gefa forsætis- og fjármálaráðherra ekki í kynningum."
Á myndinni sést niðurstaða leiðréttingarumsóknar hjónanna.