Hjón sem seldu íbúð sína sumarið 2008 á þriðjungi hærra verði en þau keyptu hana á fá rúmlega 630 þúsund krónur í skuldaniðurfellingu. Niðurfellingin fer inn á nýtt húsnæðislán þeirra sem þau tóku vegna kaupa á einbýlishúsi árið 2011. Einbýlishúsið hefði hækkað um þriðjung í verði síðan að hjónin keyptu það. Þetta kemur fram í bréfi sem annað hjónanna sendi Kjarnanum.
Kjarninn hvetur lesendur til að senda sér fleiri dæmi um niðurstöðu skuldaniðurfellinga á ritstjórn@kjarninn.is.
Bréf lesandans:
„Þetta rugl er eitthvað það óforskammaðasta sem ég veit til þess að gert hafi verið í pólitík og það þarf ekkert meira til að sýna fram á það, en nýja fréttin um greinina hans Boga í MBL er enn einn naglinn í þetta ferli.
Ég skrifa ykkur til að sýna fram á að það liggja alvöru dæmi á bak við tölurnar í greininni.
Þannig er að við hjónin keyptum okkar fyrstu íbúð í ársbyrjun 2005 á um tólf milljónir króna og seldum hana svo sumarið 2008, áður en við fluttum tímabundið af landi brott, á meira en þriðjungi hærra verði en við keyptum á. Við vorum bara mjög sátt, sérstaklega þegar komið var fram á haustið, eins og gefur að skilja.
Nema hvað, að þegar leiðréttingin er svo auglýst, þá sækjum við um, aðallega fyrir forvitni sakir enda áttum við ekki von á neinu.
Svo kemur niðurstaðan. Við fáum útreiknaða, af íbúðarláni vegna kaupa sem við högnuðumst á, innborgun upp á 630 þúsund krónur úr ríkissjóði á nýja lánið sem við tókum vegna kaupa á einbýlishúsi á suðvesturhorninu árið 2011. Og - viti menn - það hús hefur hækkað um ca. þriðjung í verði síðan við keyptum það.
Og við, sem erum í einhverju meðaltekjubili samkvæmt skilgreiningu, föllum þarna í einhvern hóp sem þarf - og á - að "bjarga" og "leiðrétta" þótt við höfum fyrirfram enga kröfu gert um slíkt, og höfum enga knýjandi þörf fyrir það.
Afsakið rantið, en mér finnst þetta svo mikil vitleysa að ég get ekki orða bundist."
Á myndinni sést niðurstaða leiðréttingarumsóknar hjónanna.
Auglýsing