Þeir sem urðu fyrir mestu tjóni vegna verðtryggðra húsnæðislána sinna fá lítið eða ekkert úr verðtryggingunni. Aðrir, sem keyptu fyrstu fasteign fyrir lok árs 2004, hafa ekki orðið fyrir þvi að skuldir þeirra hækka að raunvirði en fá samt miklar tjónsbætur frá hinu opinbera. Leiðréttingaraðgerð ríkisstjórnarinnar er því mjög ómarkviss þótt enn sé óljóst hversu mikið af þeim 80 milljörðum króna sem greiddir verði út fari til spillis, enda hafi aðgerðin verið samþykkt án þess að fyrir lægi nema að litlu leyti hvernig hún myndi nýtast.
Þetta kemur fram í grein eftir Gylfa Magnússon, lektor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, sem birtist fyrr í dag á Kjarnanum um þá aðgerð stjórnvalda að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána um 80 milljarða króna.
Það hefði jafnvel verið hægt að kaupa heilu skipsfarmana af vélbyssum fyrir lögregluna ef út í það er farið. Nú eða reisa tvær Hörpur í Skagafirði. Listinn er nánast endalaus
Í greininni segir Gylfi ennfremur að ýmislegt annað sé hægt að gera fyrir 80 milljarða króna en að nota þá í svona aðgerð. Til dæmis byggja nýjan Landsspítala, bæta menntakerfið, vegakerfið, bæta mjög hag þeirra verst settu í samfélaginu, lækka skatta eða lækka skuldir hins opinbera. „Það hefði jafnvel verið hægt að kaupa heilu skipsfarmana af vélbyssum fyrir lögregluna ef út í það er farið. Nú eða reisa tvær Hörpur í Skagafirði. Listinn er nánast endalaus“.
Lýðræðið versta stjórnarfarið, fyrir utan öll hin
Það hafi hins vegar verið pólitísk ákvörðun að eyða þessu fé með þeim hætti sem var gert og því hafi sú ákvörðun ekki þurft að koma á óvart. Hún hafi í raun verið óumflýjanleg í ljósi þeirra loforða sem gefin voru í síðustu kosningabaráttu. Ljósið í myrkrinu er að upphæðin sem varið var í skuldaleiðréttingar hafi einungis verið brot af því sem upphaflega var gefið í skyn. „Í lýðræðisþjóðfélagi er auðvitað skrýtið að skamma stjórnmálamenn þegar þeir hrinda því í framkvæmd sem þeir hafa fengið umboð kjósenda til að gera, eins og í þessu tilfelli. Þá er í raun við kjósendurna sjálfa að sakast, eða a.m.k. þann hluta þeirra sem veitti slíkt umboð.
90% íbúðalánin voru skýrt kosningaloforð sem var efnt. Það er dæmi um gráglettni örlaganna að nú skuli þeir sem tóku þau fá hluta skuldanna niðurfelldan vegna annars kosningaloforðs.
Það sama átti auðvitað við í bólunni sem leiddi til hrunsins. Ríkisstjórnir þess tíma höfðu nokkuð skýrt lýðræðislegt umboð til að þenja út fjármálakerfið, veikja regluverkið og taka ýmsar aðrar ákvarðanir sem kyntu undir brjálæðinu. Enda gerðu þær það. 90% íbúðalánin voru skýrt kosningaloforð sem var efnt. Það er dæmi um gráglettni örlaganna að nú skuli þeir sem tóku þau fá hluta skuldanna niðurfelldan vegna annars kosningaloforðs.
Kannski staðfestir þetta bara að Winston Churchill hafði rétt fyrir sér þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að lýðræði væri versta hugsanlega stjórnarfarið – að undanskyldum öllum öðrum sem reynd hafa verið.“