Um 18 þúsund heimili, af alls um 57 þúsund heimilum sem fengu skuldalækkun með Leiðréttingunni, skulduðu minna en tíu milljónir króna af verðtryggðu húsnæðisláni. Það er um þriðjungur þeirra sem fengu skuldalækkun. Innan við sjö þúsund heimili skulduðu yfir 35 milljónir króna, liðlega 33 þúsund heimila skulduðu minna en 20 milljónir og tæplega 90 prósent þeirra heimila sem áttu eftirstöðvar skulduðu innan við þrjátíu milljónir króna. Þetta er meðal þess sem lesa má úr skýrslu fjármálaráðherra um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána.
Grafið hér að neðan er unnið upp úr skýrslunni, þar sem sambærileg mynd er birt, og sýnir fjölda heimila eftir eftirstöðvum fasteignaskulda. Flestir skulduðu árið 2013, á viðmiðunarárinu, innan við tíu milljónir króna.
Fram kemur í skýrslunni að þau heimili sem skulduðu minna en 30 milljónir króna, það eru tæplega 89% þeirra sem fengu Leiðréttingu, fengu að meðaltali 1.130 þúsund króna lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. „Á heildina litið sóttu 78% heimila sem skulduðu í íbúð sinni um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. Heimili sem skulduðu á bilinu 35 til 50 milljónir króna fengu hæstu lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, að meðaltali 1.940 þúsund krónur.“
Alls bárust 69 þúsund umsóknir um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána vegna áranna 2008 og 2009. Að baki þessara umsókna voru 105 þúsund fullorðnir einstaklingar. Af umsækjendum áttu liðlega 90 þúsund rétt á lækkun höfuðstóls.