Margir hafa þá mynd af Svíþjóð að hún sé stéttlaust land. Hér er ekki bara áhersla á jöfnuð heldur hefur jantelagen, eins og það er kallað í Svíþjóð, haft mikil áhrif. Grunnhugmyndin var að allir hefðu sömu tækifæri en um leið voru þeir litnir hornauga sem gerðu mikið úr sjálfum sér eða gortuðu af eigin afrekum. Engu að síður er mjög áhrifamikil yfirstétt í landinu sem hefur meiri auð milli handanna en flestir geta ímyndað sér.
Þótt ríkustu Svíarnir dreifist vissulega um landið má segja að rjóminn af yfirstéttinni hafi nánast tekið yfir heilt hverfi í útjaðri Stokkhólms. Á Djursholm búa um níu þúsund manns og þar eru teknar ákvarðanir sem ráða miklu um örlög þjóðarinnar.
Rannsakaði Djursholm í mörg ár
Nýlega kom út löng og mikil bók sem fjallar um hverfið og íbúa þess. Höfundurinn er Mikael Holmqvist, prófessor í viðskiptafræði og leiðtogafræðum við Stokkhólmsháskóla. Hann nýtir sér ekki bara tölfræði og opinberar upplýsingar um hverfið heldur hefur hann fylgst með því í mörg ár auk þess sem hann tók viðtöl við um tvö hundruð íbúa þess. Mikael segir að þarna búi fólk sem telji sig einfaldlega hafa meiri og betri kosti en annað fólk, hvort sem er út frá fagurfræðilegum eða siðferðislegum forsendum. En þetta er líka byggð sem þrífst á einsleitni og nauðsyn þess að allt sé slétt og fellt á yfirborðinu.
Á Djursholm eru allir glaðir, sólbrúnir og í góðu formi. Hverfisbúðin selur minna af gosi og snakki en í öðrum hverfum en neysla á bæði Pensilíni og Viagra er meiri því hér má enginn vera veikur og allir eru til í tuskið. Vandamál eru aldrei rædd opinberlega heldur fara þau öll í gegnum lögfræðinga. Kvartanir til lögreglu eru fjölmargar og kærur fljúga á milli granna um leið og þeir brosa hver til annars yfir grindverkið. Íbúarnir ganga mjög langt í viðleitni sinni til að vernda einsleitnina og þótti heimili fyrir fjóra fatlaða einstaklinga til dæmis vera ógn við hverfið.
Þjónustufólk á hverju strái
Hluti af lífstíl þeirra sem búa á Djursholm felst í því að hafa þjónustufólk til að sinna flestum störfum heimilisins. Garðyrkjumenn og heimilishjálp sjá til þess að allt sé slétt og fellt á yfirborðinu, þótt reyndar sé þjónustan niðurgreidd af skattborgurum vegna reglna um skattafrádrátt. Hugmyndin um þjónustufólk nær þó mun lengra. Starfsmenn í búðum, á bókasöfnum og jafnvel stjórnmálamenn eru ekkert annað en þjónustufólk í augum íbúanna.
Þegar stjórnmálamaður tekur ákvörðun sem fellur ekki í kramið fær hann símtöl og bréf frá lögfræðingum. Oftar en ekki er þá brugðið til þess ráðs að skella skuldinni á opinberan starfsmann sem á erfitt með að verja sig. Að sjálfsögðu eru svo ráðnar barnfóstrur inn á heimilin og skiptir þá litlu máli þótt móðirin sé heimavinnandi. Hér er það gamaldags viðhorf sem ræður. Karlinn vinnur úti og óhugsandi er að hann sé heimavinnandi. Á Djursholm er heldur enginn opinberlega samkynhneigður í hverfi þar sem Kristilegir Demókratar geta treyst á meira fylgi en víðast annars staðar. Hér gildir að eiga börn og þau eru miskunnarlaust notuð sem skiptimynt í valdatafli.
Hærra hlutfall lesblindra en víðast annars staðar
Þegar barn úr „merkilegustu“ fjölskyldunum hefur skólagöngu fær skólastjórinn tugi símtala og bréfa þar sem foreldrar krefjast þess að sitt barn gangi í sama bekk. Nýjasta dæmið um þetta er Estelle prinsessa, dóttir Viktoríu krónprinsessu, sem nýlega hóf skólagöngu í hverfinu. Á Djursholm vita menn að vinskapur við verðandi drottningu getur skipt höfuðmáli í framtíðinni. Börnin skulu þess vegna leggja sitt af mörkum til að stækka netverkið með því að kynnast rétta fólkinu. Til þess að það takist dugir ekkert annað en afburða árangur í skóla. Þau börn sem greinast með einhverja röskun geta átt von á því að reiðir foreldrar berjist fyrir því að þau séu flutt í aðra bekki eða skóla.
Estelle prinsessa ásamt móður sinni, Viktoríu krónprinsessu. Mynd: EPA
Eftir grunnskóla skulu Djursholms-börnin ganga í Viktor Rydbergs menntaskólann. Skólinn er með hæstu meðaleinkunn í landinu þrátt fyrir að nemendurnir mælist rétt um meðallag í landsprófum. Há meðaleinkunn er nefnilega það eina sem gildir til að komast inn í Viðskiptaháskólann í Stokkhólmi og þess vegna líta foreldrarnir á háar einkunnir sem sjálfsagðan rétt barnanna. Ef þær lækka eru kennararnir kallaðir á teppið og þeir krafðir svara um það hvers vegna þeir standi sig ekki gagnvart börnunum.
Nemendur sem ekki ná tilsettri einkunn eru sumir hverjir sendir í Lundsberg heimavistarskólann sem var lokað tímabundið árið 2013 eftir gróft einelti og ofbeldi sem tengdist innvígslu nýrra nemenda. Önnur lausn er að fá lesblindugreiningu en hlutfall lesblindra á Djursholm er marktækt hærra en annars staðar. Kosturinn við slíka greiningu er að þá taka nemendurnir munnleg próf. Frá unga aldri eru þau vanin við að halda fyrirlestra og í raun má segja að það skipti þau minna máli að þekkja tiltekið efni nákvæmlega en að geta skilað því frá sér á réttan hátt. Allt snýst um framsetningu og leiðtogahæfni.
Þótt börnin hafi aðgang að öllum hugsanlegum lífsgæðum og verði líklega leiðtogar framtíðarinnar í Svíþjóð skortir þau þekkingu á lífinu utan hverfisins. Þess vegna sér skólinn um að kynna þau fyrir hlutum eins og að fara í strætó eða neðanjarðarlest. Mörg barnanna tala líka um að þau fái litla athygli frá foreldrum sem séu upptekin við vinnu og ferðalög. Faðmlög og væntumþykja koma því frekar frá barnfóstrum og þjónustufólki.
Fáir frumkvöðlar í hverfinu
Þeir sem hafa áhuga á að komast inn í samfélagið á Djursholm þurfa að vera moldríkir. Algengt verð á fasteign er um hálfur milljarður íslenskra króna en dýrustu húsin kosta rúman milljarð. Reyndar eru mörg heimili skuldsett upp í topp og því lifir fólk stanslaust á brúninni. Pressan að standa sig hefur gríðarleg áhrif og mistök eru ekki leyfð. Hugsanlega er það þess vegna sem fólk á Djursholm forðast frumkvöðlastarf eða nýsköpun.
Í stað þess að veðja á eitthvað nýtt gengur fólk inn í rótgróin fyrirtæki sem oft eru í eigu foreldra eða fjölskyldu. Menningarlífið á alltaf sína fulltrúa á Djursholm enda þykir það fínt. Annars búa þarna forstjórar fyrirtækja, fjármálajöfrar og svo auðvitað fulltrúar ríku ættanna eins og Wallenberg fjölskyldunnar.
Líkurnar á því að þeir sem alast upp á Djursholm verði leiðtogar eru miklar. Hér er rjóminn af elítunni, valdasamfélag sem á engan sinn líkan í Svíþjóð. Hins vegar hljóta að vakna spurningar um það hversu gott það er fyrir samfélag ef því er stjórnað af litlum hópi sem elst upp í sama hverfi með mjög ákveðið gildismat. Sérstaklega þegar hópurinn telur sig betri en aðra og lítur niður á þá sem ekki búa við sömu lífsgæði.