Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að fjölga atvinnuleyfum fyrir leigubílaakstur um 100 á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Með breytingunni fjölgar úthlutuðum leyfum úr 580 í 680, eða um 17,2 prósent. Um er að ræða mestu fjölgun atvinnuleyfa í einu skrefi frá því að lög um leigubifreiðar voru sett árið 2001, eða í 21 ár. Úthlutun nýrra atvinnuleyfa er fyrirhuguð á næstu vikum.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að breytingarnar séu gerðar til að koma til móts við óskir í samfélaginu um meiri þjónustu á leigubílamarkaði. Þar segir enn fremur að Samgöngustofa hafi ekki gert athugasemdir um fjölgun leyfa á umræddu svæði, en hún á samkvæmt lögum að meta tillögur að breytingum sem þessum. „Á hinn bóginn taldi stofnunin ekki ástæðu til að fjölga atvinnuleyfum á öðrum takmörkunarsvæðum.“
Afturkallaði frumvarp um breytingar á markaðnum
Sigurður Ingi lagði fram frumvarp um leigubifreiðaakstur í febrúar síðastliðnum sem byggði á tillögum starfshóps ráðuneytis hans um heildarendurskoðun á regluverki í kringum starfsemina. Starfshópurinn var skipaður 19. október 2017 og skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins í mars 2018, eða fyrir rúmum fjórum árum. Hann hefur afturkallað frumvarpið.
ESA tók ákvörðun í nóvember í fyrra um að stíga fyrsta skrefið í samningsbrotamáli gegn Íslandi fyrir að virða ekki EES-reglur um leigubílamarkaðinn. Í tilkynningu frá eftirlitsstofnuninni sagði að núverandi löggjöf takmarki úthlutun atvinnuleyfa fyrir leigubiílaakstur innan takmörkunarsvæða. „Reglur um úthlutun atvinnuleyfa innan skilgreindra svæða eru ekki hlutlægar og hygla núverandi leyfishafa. Þetta felur í sér mögulegar aðgangshindranir og hindrar fyrir að nýir aðilar hefji starfsemi í atvinnugreininni. Löggjöfin skyldar einnig leyfishafa til að hafa leigubifreiðaakstur sem meginatvinnu og krefst þess að viðkomandi sé tengdur leigubifreiðastöð.“
Uber og Lyft ekki á leiðinni
Sigurður Ingi sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu sem hann hefur nú afturkallað að ráða mætti af samskiptum við ESA að stofnunin teldi líkur á því að íslensk löggjöf um leigubílar fæli í sér aðgangshindranir sem ekki samræmdust alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins. „Markmiðið með frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er fyrst og fremst að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir almenning á Íslandi. Þá er frumvarpinu ætlað að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs þar sem öruggar og tryggar samgöngur eru hafðar að leiðarljósi auk þess að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar. Verði frumvarpið að lögum munu þau auka atvinnutækifæri fjölbreyttra hópa.“
Ef frumvarpið yrði að lögum myndi svokölluðu takmörkunarsvæði heyra sögunni til, en þau eru höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Árborgarsvæðið og Akureyri. Svokallaðar farveitur, á borð við Uber og Lyft, gætu hafið starfsemi hérlendis en þær þyrftu að uppfylla sömu skilyrði og hefðbundnar leigubílastöðvar til að fá leyfi.