Mikinn mun má sjá á stærð leigumarkaðarins hér á landi eftir að heimsfaraldurinn hófst, en samkvæmt könnunum Zenter og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) hefur hann minnkað um fimmtung á síðustu mánuðum, miðað við stærð hans á árunum 2017-2019.
Zenter og HMS hafa reglulega framkvæmt kannanir um stöðu á leigumarkaði frá byrjun árs 2017. Þá sögðust um 18 prósent svarenda búa í leiguhúsnæði, en ef litið er til áranna 2017, 2018 og 2019 svöruðu að meðaltali 16 prósent svarenda þeirri spurningu játandi.
Líkt og sjá má á mynd hér að neðan minnkaði hins vegar hlutfall þeirra sem búa í leiguhúsnæði hratt eftir að heimsfaraldurinn hófst í mars í fyrra. Í apríl var það komið niður í 13 prósent og hefur það hlutfall haldist nokkuð stöðugt í öllum könnunum síðan þá. Ef niðurstöður könnunarinnar gefa rétta mynd af leigumarkaðnum þýðir þetta að hann hefur minnkað um fimmtung á þessum tíma.
Jákvæðari í garð leigumarkaðarins
Samkvæmt HMS hefur vísitala leiguverðs lækkað hægt og rólega eftir að faraldurinn hófst. Í maí og júní hefur hins vegar orðið viðsnúningur í þeirri þróun og er leiguverðið byrjað aftur að hækka á ný. Það er þó enn 0,5 prósentum lægra en það var fyrir ári síðan.
Þrátt fyrir að færri búi nú í leiguhúsnæði virðast viðhorf til leigumarkaðarins hafa batnað á síðustu mánuðum, en töluvert hærra hlutfall svarenda könnunarinnar segja nú að mikið sé til af hentugu framboði af íbúðarhúsnæði til leigu en áður.
Sömuleiðis hefur hlutfall þeirra sem telja hagstætt að leigja hækkað nokkuð, þrátt fyrir að það sé ennþá lágt. Í maí töldu 5,5 prósent svarenda að leiga á íbúðarhúsnæði væri hagstæð, á meðan 86,6 prósent þeirra töldu það vera óhagstætt.
Betri fjárhagur og meira öryggi
Samhliða minnkun vinnumarkaðarins hefur fjárhagur svarenda könnunar Zenter og HMS einnig batnað töluvert. Í síðustu könnun, sem framkvæmd var í maí, svaraði átti rúmur fjórðungur svarenda erfitt með að ná endum saman, en samsvarandi hlutfall var 35 prósent í apríl í fyrra og 37 prósent í apríl árið 2019.
Sömuleiðis hefur húsnæðisöryggi svarenda aukist, úr 85 prósentum árið 2019 og upp í 92 prósent í maí. Hlutfall þeirra sem telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi á sama tíma hefur rúmlega helmingast.