Leigutekjur Íslendinga á árinu 2020 skruppu saman um 6,3 milljarða króna milli ára og voru alls 17 milljarðar króna. Þar af voru tekjur af leigu íbúðarhúsnæðis 15,3 milljarðar króna, sem er 705 milljónum króna minna en árið 2019. Leigutekjur af öðrum eignum voru svo 1,7 milljörðum krónum, eða 448 milljónum krónum lægri en árið áður.
Þetta kemur fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2021 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar.
Þetta er í fyrsta sinn í mörg ár sem þessar tekjur dragast saman og fyrirliggjandi að kórónuveirufaraldurinn hefur þar haft umtalsverð áhrif. Útleiga á íbúðarhúsnæði til ferðamanna dróst til að mynda verulega saman og mikil efnahagsleg áhrif faraldursins á ýmis fyrirtæki gerðu það að verkum að þau gátu ekki staðið undir leigugreiðslum fyrir húsnæði sem þau nýttu eða þurftu að endursemja um leigu. Sum lögðu einfaldlega upp laupanna. Aukin heimavinna gerði það síðan að verkum að þörf fyrir skrifstofurými dróst verulega saman.
Fyrir vikið fækkaði þeim sem töldu fram leigutekjur umtalsvert milli ára, úr 10.284 í 9.969. Mestu munaði um að færri töldu fram tekjur af öðru húsnæði en íbúðarhúsnæði fækkaði um 293. Þá voru 8.568 fjölskyldur með tekjur af leigu íbúðarhúsnæðis, sem var 77 færra en árið áður.
35 prósent íbúða í eigu þeirra sem eiga fleiri en eina
Kjarninn greindi frá því í lok síðasta árs að alls eiga 71 einstaklingar og 382 lögaðilar fleiri en sex íbúðir, 155 einstaklingar og 101 lögaðilar eiga fimm íbúðir og 579 einstaklingar og 165 lögaðilar eiga fjórar íbúðir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga þrjár íbúðir er 2.974 og fjöldi lögaðila sem eiga sama magn íbúða er 285. Þá eiga 16.501 einstaklingur og 688 lögaðilar tvær íbúðir.
Þetta kom fram í svari Þjóðskrár við fyrirspurn Kjarnans um málið. Vert er að taka fram að einstaklingur eða lögaðilar geta verið eigendur að sömu eignunum.
Í tölunum má sjá að 35,1 prósent íbúða var í eigu einstaklinga eða lögaðilar sem áttu fleiri en eina íbúð, alls 52.079 íbúðir. Það hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt á síðustu árum en hefur hækkað skarpt frá því sem var fyrir 15 árum, þegar 28,5 prósent íbúða voru í eigu aðila sem áttu fleiri en eina íbúð.
Greiðslubyrði sem teljast má íþyngjandi
Í árlegri könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á íslenska leigumarkaðnum, sem framkvæmd var frá júní til september 2021 og nær til einstaklinga 18 ára og eldri sem eru á leigumarkaði á landinu öllu, kom fram að hlutfall ráðstöfunartekna allra leigjenda sem fer í leigu sé nú 45 prósent. Það var 40 prósent 2019.
Samkvæmt HMS gefur það hlutfall til kynna mjög mikla greiðslubyrði að meðaltali sem teljast megi íþyngjandi. Í umfjöllun um könnunina er þó tekið fram að aukninguna á hlutfallinu megi að hluta til skýra með því að tekju- og eignameiri leigjendur náðu að komast af leigumarkaði og yfir í eigið húsnæði á tímabilinu.
Í sömu könnun kom fram að leigjendur hjá einkareknum leigufélögum og einstaklingum á almennum markaði voru með næsthæsta hlutfall þeirra sem greiddu 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, eða 13 prósent. Einungis leigjendur á stúdentagörðum, að uppistöðu námsmenn með lágar tekjur, voru með hærra hlutfall þeirra sem greiddu svo stóran hluta ráðstöfunartekna í leigu, eða 15 prósent.
Hlutfall þeirra sem greiddi helming eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu var hins vegar langhæst hjá einkareknum leigufélögunum, samtals 44 prósent. Til samanburðar var það hlutfall 26 prósent hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og 23 prósent hjá þeim sem leigðu af ættingjum eða vinum.