Leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu lækkaði töluvert í síðasta mánuði. Milli maí og júní lækkaði leiguverð um 1,9 prósent, samkvæmt mælingum Þjóðskrár Íslands á leiguverði. Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um 0,6 prósent á síðustu þremur mánuðum en hækkað um 3,3 prósent á síðustu tólf mánuðum. Grafið hér að neðan er unnið úr gögnum Þjóðskrár og sýnir hvernig verð hefur breyst síðustu tólf mánuði.
Upplýsingar um breytingar á vísitölu leiguverðs fyrir apríl, maí og júní voru birtar síðasta föstudag á vef Þjóðskrár. Þær voru ekki birtar fyrr vegna verkfalls lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur í frétt Þjóðskrár að talnaupplýsingar um leiguverð í júní eru unnar upp úr 480 leigusamningum sem þinglýst var í júní 2015.
Mikill munur eftir svæðum og gerð í Reykjavík
Þegar rýnt er nánar í gögn Þjóðskrár eftir stærð húsnæðis og svæðum sést að mikill munur er á verðbreytingum síðasta árið. Samkvæmt gögnunum hefur meðal-leiguverð á tveggja herbergja íbúð í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar og á Seltjarnarnesi hækkað um 6,4 prósent milli júní 2014 og júní 2015. Meðal-leiguverð á þriggja herbergja íbúð á sama svæði hefur lækkað um rúmt prósent og leiguverð á fjögurra til fimm herbergja íbúð á sama stað hefur hækkað um rúm tíu prósent, samkvæmt þinglýstum samningum.
Leiguverð á tveggja herbergja íbúð í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar var um 14,7 prósentum hærra í júní 2015 en í júní 2014. Þriggja herbergja íbúð á þessu svæði hefur á tímabilinu hækkað um aðeins 1,6 prósent samkvæmt gögnum Þjóðskrár og leiguverð á fjögurra til fimm herbergja íbúð á þessu svæði hefur hækkað um 13 prósent milli ára að meðaltali.
Lækkun sögð eðlileg
Fjallað er um lækkun vísitölu leiguverðs í júní í Morgunblaðinu í dag og er haft eftir Svani Guðmundssyni, leigumiðlara, að þróunin sé eðlileg. „Þetta kemur ekki mikið á óvart af fenginni reynslu, bæði á þessum tíma og líka vegna þess að fólk ræður illa við leiguna. Það er minni eftirspurn á sumrin en með haustinu eykst hún. Þegar skólarnir byrja og þegar nær dregur áramótum eykst hún aftur,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.