Leiguverð íbúðahúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur fylgt þróun kaupverðs náið eftir síðustu fjögur ár, samkvæmt vísitölum Þjóðskrár á leiguverði annars vegar og kaupverði fjölbýlis hins vegar. Þjóðskrá hóf að mæla leiguverð, samkvæmt þinglýstum leigusamningum, fyrir fjórum árum síðan.
Hagfræðideild Landsbankans fjallar í dag um leiguverð íbúða í Reykjavík í samanburði við bæði kaupverð þeirra og leiguverð í nágrannaborgum. Er það niðurstaða hagfræðideildarinnar að í Reykjavík sé óhagstætt að leigja miðað við kaupverð íbúða. Það sé mun óhagstæðara að leigja í dag en fyrir nokkrum árum.
Þessi samanburður á leiguverði og kaupverði sýnir jafnframt mikla sérstöðu Reykjavíkur í samanburði við aðrar borgir á Norðurlöndunum. Þar er í flestum tilvikum hagstæðara að leigja húsnæði en að kaupa það, miðað við útreikninga hagfræðideildarinnar.
„Leigumarkaður hefur löngum verið óstöðugri og vanþroskaðri hér á landi en í nágrannalöndunum, enda hefur séreignastefna löngum ráðið ríkjum hér. Mikil umræða fer jafnan fram um nauðsyn þess að bæta aðstæður á leigumarkaði en litlar breytingar hafa orðið í þeim efnum af opinberri hálfu enda breytingar til úrbóta mjög kostnaðarsamar,“ segir í hagsjánni.