Alls lásu 8,5 prósent fullorðinna landsmanna undir fimmtugu Morgunblaðið í ágústmánuði. Lesturinn dróst saman um 0,9 prósentustig í mánuðinum eða um tæp tíu prósent. Fyrir tólf árum, þegar sá hópur sem er stærstur á meðal eigenda útgáfufélags Morgunblaðsins keypti það, var lesturinn hjá þessum hópi 32,8 prósent. Hann er því nú rétt um fjórðungur þess sem hann var þá.
Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Gallup um lestur dagblaða á Íslandi.
Heildarlestur Morgunblaðsins fór í fyrsta sinn undir 19 prósent í síðasta mánuði og mældist 18,9 prósent. Lesendur voru 42,7 prósent landsmanna þegar nýju eigendurnir tóku við árið 2009. Frá byrjun árs í fyrra hefur öllum lesendum Morgunblaðsins fækkað um fimmtung. Lestur Morgunblaðsins hefur aldrei verið minni.
Þessi þróun, hríðminnkandi lestur, hefur átt sér stað þrátt fyrir að Morgunblaðið hafi síðastliðin ár verið fríblað á fimmtudögum. Í því felst að blað er í aldreifingu þá daga og fer inn á heimili tugþúsunda sem eru ekki áskrifendur. Almenn áskrift að Morgunblaðinu kostar í dag 7.982 krónur á mánuði, eða 95.784 krónur á ári.
Lestur Fréttablaðsins á leiðinni undir 30 prósent
Staðan er lítið betri hjá hinu stóra dagblaðinu á Íslandi, Fréttablaðinu, sem er frídreift í 80 þúsund eintökum á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri fimm daga vikunnar. Nú lesa 22,2 prósent landsmanna í aldurshópnum 18-49 ára það blað en í byrjun árs 2009 lásu 65,1 prósent íbúa á Íslandi Fréttablaðið. Lesturinn nú er því þriðjungur þess sem hann var fyrir rúmum tólf árum og hefur aldrei verið minni.
Áframhaldandi mikið rekstrartap
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að rekstrartap Árvakur útgáfufélags Morgunblaðsins, mbl.is og K100, hefði verið 210,3 milljónir króna. Það var aðeins minna rekstrartap en árið áður þegar útgáfufélagið tapaði 245,3 milljónum króna.
Sá munur var á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla árið 2020 miðað við árið 2019 að í fyrra ákvað Alþingi að veita rekstrarstuðning til þess að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldursins, og studdi við fyrirtæki með ýmsum öðrum hætti.
Rekstrarstyrkurinn sem Árvakur fékk nam alls 99,9 milljónum króna, en eitt hundrað milljóna króna þak var á styrkjum til hvers fjölmiðlafyrirtækis. Því má ætla að rekstrartapið hafi verið yfir 300 milljónir króna ef ekki hefði verið fyrir rekstrarstyrkinn.
Árvakur fékk svo úthlutað rúmlega 81 milljón króna styrk úr ríkissjóði fyrr í þessum mánuði þegar rekstrarstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla var úthlutað. Kjarninn var á meðal annarra fjölmiðla sem fengu styrk.
Tapað yfir 2,5 milljörðum
Í ársreikningi Árvakurs segir að á árinu 2020 hafi verið „unnið að hagræðingaraðgerðum í rekstri félagsins til að mæta þeim rekstrarvanda sem einkareknir fjölmiðlar hér á landi búa við og mun verða haldið áfram á þeirri vegferð til að ná jafnvægi í rekstri þess, en hvenær það næst er erfitt að meta með áreiðanlegum hætti. Það er mat stjórnenda félagsins að ekki sé vafi á rekstrarhæfi félagsins eins og staða þess er í dag. En gangi áætlanir stjórnenda ekki eftir ríkir ákveðin óvissa um rekstrarhæfi félagsins til lengri tíma.“
Sá eigendahópur sem tók við Árvakri árið 2009 hefur samtals lagt félaginu til 1,9 milljarða króna í nýtt hlutafé á rúmum áratug, síðast 300 milljónir króna á árinu 2019. Samanlagt endanlegt tap félagsins á sama tímabili er yfir 2,5 milljörðum króna.
Stærsti eigandinn er Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt á sá hópur 25,5 prósent hlut. Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,4 prósent eignarhlut.
Miklir fjármunir settir inn í reksturinn
Í júní 2019 keypti athafnamaðurinn Helgi Magnússon helmingshlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins, Torgi. Kaupverðið var trúnaðarmál en í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans, meðal annars ritstjórinn Jón Þórisson, hinn helminginn í útgáfunni auk þess sem sjónvarpsstöðinni Hringbraut var rennt inn í reksturinn. Aftur var kaupverðið sagt trúnaðarmál. Eignarhaldið á Torgi hefur verið í félagi sem heitir HFB-77 ehf. Það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna í fyrra. Torg er eina þekkta eign félagsins og var keypt á síðasta ári. Í desember 2020 var svo greint frá því að Helgi hefði keypt nýtt hlutafé í Torgi fyrir 600 milljónir króna.
Miðað við þær upplýsingar má ætla að Helgi og viðskiptafélagar hans hafi sett um 1,2 milljarð króna í að annars vegar kaupa Torg og hins vegar að styrkja rekstur útgáfufélagsins.
Þegar nýju eigendurnir komu að Fréttablaðinu var því dreift sex daga vikunnar í 85 þúsund eintökum ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Í fyrra var ákveðið að hætta útgáfu mánudagsblað og fækka þannig útgáfudögum um einn. Dreifingin hefur auk þess dregist saman úr 85 í 80 þúsund eintök á dag.
Önnur breyta sem gæti haft áhrif á lestur Fréttablaðsins eru breytt lög um póstþjónustu, sem samþykkt voru 2019, og gera fríblöðum erfiðara fyrir en áður að ná augum fólks. Í þeim er réttur neytenda til að afþakka fríblöð tryggður. Á grunni þeirra laga réðst Reykjavíkurborg í útgáfu á svokölluðum afþökkunarlímmiðum fyrir Reykvíkinga, sem sendir voru á öll heimili á þessu stærsta dreifingarsvæði fríblaða á Íslandi.
Lestur Fréttablaðsins hefur dregist saman um fimmtung frá því að nýir eigendur komu að blaðinu.
Hundruð milljóna tap
Tap Torgs á árinu 2019 var 212 milljónir króna en þar var búið að reikna með 50 milljóna króna styrk út ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla. Þeir styrkir voru aldrei greiddir út, enda frumvarp um þá ekki samþykkt. Hins vegar voru greiddar út sérstakir neyðarstyrkir vegna kórónuveirufaraldursins sem á endanum skiluðu Torgi 64 milljónum króna.
Torg hefur ekki skilað inn ársreikningi vegna ársins 2020 þrátt fyrir að lögbundinn frestur til þess hafi runnið út um síðustu mánaðarmót. Í nafnlausum skoðanapistli sem birtist í Viðskiptablaðinu í byrjun mánaðar var því haldið fram að rekstrartapið í fyrra hefði numið tæpum hálfum milljarði króna.
Ritstjóraskipti urðu fyrir skemmstu hjá Fréttablaðinu þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson tók við af Jóni Þórissyni.
Torg fékk úthlutað rúmlega 81 milljón króna styrk úr ríkissjóði fyrr í þessum mánuði þegar rekstrarstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla var úthlutað.