Lestur DV heldur enn áfram að dala og fellur up eitt prósent á milli mánaða. Nú lesa 7,44 prósent landsmanna blaðið, sem er langlægsta hlutfall lesenda frá því að DV kom aftur inn í mælingar á lestri í upphafi árs 2010. Alls hefur lesturinn fallið um þriðjung frá því að breytinga urðu á eignarhaldi DV í lok síðasta sumar.
Þegar lesturinn hjá yngri lesendum er skoðaður kemur í ljós að 6,6 prósent 18-49 ára lesi blaðið. Á Höfuðborgarsvæðinu er lestur þess hóps á DV einungis 6,3 prósent. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri prentmiðlakönnun Gallup, en niðurstöður hennar voru birtar í dag.
Lestur DV hefur dregist hratt saman undanfarna mánuði í kjölfar mikilla átaka um eignarhald miðilsins og mikilla breytinga á starfsmannahaldi. Reynir Traustason, fyrrum aðaleigandi DV og ritstjóri blaðsins, var ýtt út af miðlinum í sumarlok eftir að aðilar undir forystu Þorsteins Guðnasonar, sem lánað höfðu DV töluvert fé, tóku yfir fjölmiðilinn. Með Reyni hurfu á brott allir helstu stjórnendur DV og nokkrir blaðamenn. Flestir í þeim hópi stofnuðu síðar fjölmiðilinn Stundina.
Mikil átök um eignarhald DV
Í dag er stærsti eigandi og útgefandi DV Björn Ingi Hrafnsson. Útgáfufélag hans heldur líka úti vefmiðlunum DV.is, Eyjan.is, Pressan.is og Bleikt.is.
Í september 2014, skömmu eftir að Reynir og samstarfsfélagar hans yfirgáfu DV, var lestur blaðsins ellefu prósent. Á þeim sjö mánuðum sem liðnir eru frá þeim tíma hefur lesturinn minnkað um þriðjung.
DV náði að auka lestur sinn hjá fólki undir fimmtugu í marsmánuði um tæp 20 prósent, eða upp í 6,6 prósent. Þar spilaði áskriftartilboð þar sem nýjum áskrifendum bauðst að fá nýjan iPad með áskrift að DV og DV.is. Í aprílmánuði var hins vegar ekki mælanleg breyting á lestri DV í þessum aldurshópi.
Neytendastofa bannaði DV fyrir skemmstu að birta auglýsingar þar sem því er haldið fram að fólk fái iPad spjaldtölvur „frítt“ og „í kaupbæti“ með áskrift að fjölmiðlinum. Lög voru brotin með þessum viðskiptaháttum og DV þarf að greiða stjórnvaldssekt vegna málsins, að upphæð 300 þúsund krónur. Neytendastofa sagði að ekki fáist annað séð en að kostnaðurinn við spjaldtölvuna sé innifalinn í verði áskriftar og því „hvorki frír né í kaupbæti þar sem áskriftarleiðin var 334,9% dýrari fyrstu þrjá mánuðina og 167,5% að þeim tíma liðnum miðað við áskrift án iPad."
Stóru blöðin stöðug eftir mikið fall undanfarin ár
Ekki eru miklar breytingar á lestri stærstu prentmiðla sem taka þátt í prentmiðlamælingum Gallup.
Fréttablaðið er langmest lesna dagblað landsins með 51,8 prósent lestur. Hann jókst um 0,25 prósent í síðasta mánuði og var nokkuð stöðugur annan mánuðinn í röð. Lestur blaðsins hefur hins vegar fallið skarpt þegar litið er yfir lengra tímabil og alls um 20 prósent á síðustu fimm árum. Fallið hefur sérstaklega verið mikið hjá Íslendingum undir fimmtugu en nú lesa um 45,5 prósent landsmanna í þeim aldurshópi blaðið.
Morgunblaðið, stærsta áskriftarblað landsins, tapar lítillega lestri milli mánaða en alls lesa 28,2 prósent þjóðarinnar blaðið. Lesturinn hefur dregist mikið saman undanfarin ár líkt og hjá Fréttablaðinu.Til að setja það fall í samhengi má rifja upp að lestur Morgunblaðsins var 43 prósent árið 2009. Lesturinn hefur dregist skarpast saman hjá yngri lesendum. Í dag lesa undir 20 prósent Íslendinga undir fimmtugu blaðið.
Viðskiptablaðið aldrei mælst með meiri lestur
Fréttatíminn, sem er í frídreifingu, er sá prentmiðill sem mælist með næstmestan lestur, en allslesa 40,2 prósent landsmanna blaðið. Það er aðeins minna en í marsmánuði þótt munurinn sé vart mælanlegur.
Viðskiptablaðið, sem er selt í áskrift, mælist með 12,2 prósent lestur. Það er mesti lestur sem það hefur verið með frá því að það kom aftur inn í mælingar Gallup í júní 2011. Lestur blaðsins hefur aukist sérstaklega mikið það sem af er þessu ári.