Lestur Fréttablaðsins minnkaði um 0,65 prósentustig í síðasta mánuði. Alls lesa nú 51,4 prósent landsmanna á aldrinum 12-80 ára blaðið, sem er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar. Í apríl 2010 lásu 64 prósent landsmanna blaðið. Því hefur blaðið tapað um 20 prósent lesenda sinna á síðustu tæpu fimm árum. Þetta kemur fram í nýjum mælingum Gallup á dagblaðalestri á Íslandi.
Vert er að taka fram að upplag Fréttablaðsins hefur dregist saman á tímabilinu.
Fallið er enn meira þegar horft er á aldurshópinn 18-49 ára á höfuðborgarsvæðinu einvörðungu. Í apríl 2010 lásu 77,5 próent þeirra blaðið. Í síðasta mánuði var það hlutfall komið í 46,8 prósent. Það þýðir að 40 færri lesa Fréttablaðið í hópnum í dag en gerðu það fyrir tæpum fimm árum.
Lestur DV ekki mælst minni
Miklar sviptingar hafa verið í kringum DV undanfarna mánuði með eigendaskiptum, uppsögnum, brottrekstrum og nýjum ráðningum. Þegar best gekk hjá DV voru 14,15 prósent landsmanna á aldrinum 12 til 80 ára að lesa blaðið. Það var í maí 2011. Tæpum þremur árum síðar var hann 12,3 prósent og í september 2014, skömmu eftir að Reyni Traustasyni,fyrrum ritstjóra, og samstarfsmönnum hans var ýtt út af fjölmiðlinum var lesturinn ellefu prósent. Lesturinn hefur dregist skarpt saman síðan þá og mælist nú 8,6 prósent. Alls dróst lesturinn saman í síðasta mánuði um tæp tíu prósent. Lestur DV hefur aldrei mælst lægri í mælingum Gallup frá því að DV kom aftur inn í mælingarnar eftir eigendaskipti árið 2010. Það virðist fyrst og síðast vera ungt fólk sem er að hætta að lesa DV. Í aldurshópnum 18 til 49 ára mældist lestur DV mestur 12,1 prósent í maí 2013. Hann mælist nú 5,3 prósent. Hann hefur því dregist saman um tæp 60 prósent á tæpum tveimur árum hjá hópnum.
Lesendum Morgunblaðsins fækkar hægt og rólega
Morgunblaðið, stærsta áskriftarblað landsins, var lesið af um 43 prósent landsmanna árið 2009 en er nú með 28,3 prósent lestur. Lestur blaðsins fór í fyrsta sinn í áratugi undir 30 prósent snemma árs í fyrra. Lesendur Morgunblaðsins virðast líka vera í eldri kantinum því að í aldurshópnum 18 til 49 ára lesa einungis um 21,7 prósent landsmanna Morgunblaðið og þar eykst lesturinn lítillega á milli mánaða. Vefsíða útgáfufélags Morgunblaðsins, mbl.is, er hins vegar sú mest lesna á Íslandi.
Lestur Viðskiptablaðsins, sem er selt í áskrift, mælist 9,85 prósent og hefur haldist nokkuð stöðugur um langt skeið. Um 37,7 prósent landsmanna segjast lesa fríblaðið Fréttatímann, sem er dreift frítt einu sinni í viku.